144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hressilegt að vera komin hér í Evrópuumræðu. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki tekið þátt í henni um nokkurra mánaða skeið en hún er alltaf athyglisverð.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hér, lýðræðishalla innan Evrópusambandsins, 400 nefndir, hvernig getum við sinnt þessu, þá er það mjög góð umræða. Hún á við hvort sem við erum í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið eða innan Evrópusambandsins vegna þess að okkur Íslendingum fjölgar ekkert við það að ganga í Evrópusambandið, þó að hv. þingmaður kynni að halda það. Það þarf að dekka þessa pósta hvort sem er. Auðvitað eigum við að halda áfram að vinna náið með Norðmönnum.

Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni um niðurstöðu skýrslunnar sem hann nefnir. Nú er dálítill tími síðan ég las hana en í minningu minni er niðurstaða hennar ekki svo afdráttarlaus að Norðmenn hafi ekki haft nein áhrif. Þar er meðal annars sett fram gagnrýni á lýðræðishallann í Evrópusambandinu, hvort sem ríki eru innan þess eða utan.

Varðandi samstarf við þingflokkana á Evrópuþinginu get ég tekið undir með þingmanninum að það er auðvitað eitthvað sem við eigum að gera, enda var það ein af tillögunum sem kom út úr fyrrnefndri vinnu okkar í utanríkismálanefnd á sínum tíma, að styrkja samskipti þingsins og flokkanna við Evrópuþingið. Ég er þar þingmanninum alveg sammála, ég held að það sé lykilatriði enda hafa flokkarnir held ég flestir hverjir verið að gera það, hvort sem er, til þess að komast nær ákvarðanatökunni þar. Ég held að við eigum að forgangsraða hvar við eigum að vera á vaktinni og passa upp á að við séum til staðar (Forseti hringir.) þar sem við höfum tækifæri til að gera athugasemdir.