144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:41]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar erum við í grundvallaratriðum ósammála. Ég hef trú á því og ríkisstjórnin að við getum haft meiri áhrif en við höfum haft. Og varðandi tillögur um að styrkja samskipti þingsins við Evrópuþingið þá fylgdu þeim tillögum einmitt fjárútlát. Þær komu fram síðla árs 2008 þannig að við efnahagshrunið voru þetta kannski ekki þær tillögur sem voru settar fyrst í framkvæmd. En ég held að við ættum, þegar betur fer að ára, að draga þær fram að nýju því að þetta er lykilatriði.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að til að styrkja þetta starf þurfum við að kosta til fjármunum. Það er einfaldlega þannig. Við þurfum að styrkja utanríkisþjónustuna, til að mynda með því að forgangsraða verkefnum. Það hefur til dæmis losnað um talsverðan fjölda starfsfólks frá tíð hv. þingmanns sem utanríkisráðherra sem var upptekið í aðildarviðræðum og sinnir þá núna frekar ýmissi hagsmunagæslu á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins og fylgir þeim samningum eftir. Það þarf því ekki alltaf að kosta til auknum fjármunum heldur er þetta líka spurning um til hvaða verkefna við leggjum fjármuni og hvernig við nýtum þá best.

Ég held að aðalmarkmiðið sé að gæta íslenskra hagsmuna. Þar veit ég að hv. þingmaður og ég erum sammála jafnvel þótt við séum ekki, eins ótrúlega og það hljómar, sammála um alla hluti.