144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja.

99. mál
[16:45]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Af því að við vorum að tala áðan um merkingar og upplýsingaskyldu langar mig til að taka undir það að ég styð heils hugar að almenningur sé eins vel upplýstur og mögulega hægt er um þær vörur sem eru verslaðar. Mér finnst það mjög mikilvægt. Mér finnst leiðinlegt hversu mikið ósamræmi er í því hvernig eftirlitið virkar með þessu. Til dæmis var það í janúar 2011, minnir mig, sem innleidd var reglugerð varðandi merkingar á erfðabreyttum matvörum. Eftirlitið með þessu er ekki neitt. Þið voruð að tala um refsigleði áðan en það er engin refsigleði þar. Það má nefna merkingar um uppruna matvara. Það kemur allt of oft fyrir að vörur eru ekki merktar og starfsfólk í búðum hefur ekki hugmynd um hvaðan vörurnar koma. Kannski virkar refsingin. Ef eftirlitið er svona slakt þarf að vera einhver refsing sem gerir það að verkum að fólk tekur ekki sénsinn en það væri skemmtilegt ef það væri hægt að samræma þetta yfir allt. Þetta er allt saman mjög mikilvægt, að fólk sé upplýst um þá vöru sem það verslar.

Skemmtilegast væri að sjá að í framtíðinni, af því að þetta gæti orðið dálítið löng ritgerð af upplýsingum um vöruna, yrði þetta sett á einhvers konar rafrænt form og hægt væri að skoða það í snjallsímanum sínum. Ég sé það í framtíðinni.