144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

greiðsludráttur í verslunarviðskiptum.

8. mál
[16:51]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum á þskj. 8 í máli nr. 8. Frumvarpið innleiðir ákvæði tilskipunar 2011/7/EB frá 16. febrúar 2011 um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum. Jafnframt kallar innleiðing tilskipunarinnar á breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

Tilskipunin sem hér er innleidd leysir af hólmi tilskipun 2000/35/EB með sama heiti en hún var tekin upp í íslenskan rétt með lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, samanber m.a. III. kafla þeirra laga um dráttarvexti.

Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta löggjafarþingi, fór til meðferðar í fastanefnd sem afgreiddi málið til 2. umr. en náði ekki fram að ganga og er því endurflutt nú. Greiðsludráttur í verslunarviðskiptum hefur veruleg áhrif á afkomu og veltu fyrirtækja, þá sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Að auki dregur greiðsludráttur úr samkeppnishæfni og virkni markaðarins.

Með frumvarpinu eru að meginstefnu til settar fram skýrar og almennar reglur um greiðslufrest í verslunarviðskiptum auk þess sem settar eru fram sérreglur fyrir opinbera aðila annars vegar og almenn fyrirtæki í verslunarviðskiptum hins vegar. Þá er gert ráð fyrir nýmæli sem er innheimtubætur sem fela í sér fasta bótagreiðslu vegna innheimtukostnaðar, auk þess sem sérstaklega er tiltekið í frumvarpinu hvaða samningsskilmálar í verslunarviðskiptum munu teljast bersýnilega ósanngjarnir. Frumvarpið er bundið við greiðslur sem eru þóknun fyrir verslunarviðskipti og gilda ákvæði þess ekki um neytendur. Sérstaklega er tiltekið að frumvarpið gildi ekki um kröfur sem nauðasamningur tekur til, kröfur sem falla undir greiðslustöðvun né heldur um kröfur sem mál hefur verið höfðað um á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti. Ljóst má vera að frumvarpið mun leiða til bættra viðskiptahátta, bæði hvað varðar viðskipti opinberra aðila og eins hvað varðar verslunarviðskipti á milli fyrirtækja, auk þess sem leiða má að því líkur að skýrar og skarpari reglur um verslunarviðskipti munu jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja, sérstaklega þeirra sem hafa átt í viðskiptum við ríkið og opinbera aðila.

Ef við skoðum nánar meginefni frumvarpsins má segja að í frumvarpinu felist helst eftirfarandi: Í verslunarviðskiptum milli fyrirtækja, „business to business“, eins og kallað er, eru settar kröfur um tiltekið hámark á greiðslufrest sem veittur er þegar samningur um greiðslu fyrir vöru eða þjónustu er til staðar. Gert er ráð fyrir að mest skuli semja um 60 daga greiðslufrest en þó er heimilað að semja um lengri frest að því gefnu að slíkt sé ekki bersýnilega ósanngjarnt gagnvart kröfuhafa. Í þeim tilfellum þegar fyrirtæki hafa ekki gert með sér samning um greiðslu fyrir vöru eða þjónustu er mögulegt að beita fyrir sig ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu, um töku dráttarvaxta að liðnum 30 dögum frá því að sannanlega var krafist greiðslu. Þá eru settar strangari reglur um verslunarviðskipti hins opinbera og greiðslufrestur takmarkaður við 30 daga. Mögulegt er að fá undanþágu frá þessari reglu þegar um er að ræða opinbera aðila sem starfa á sviði heilbrigðisþjónustu eða ef starfsemi opinbers aðila er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði. Er þá mest mögulegt að semja um greiðslufrest upp á 60 almanaksdaga. Röksemdir fyrir þessari sérreglu um opinbera aðila eru meðal annars þær að opinberir aðilar njóta öruggari, fyrirsjáanlegri og samfelldari tekjuleiða en fyrirtæki og geta auk þess aflað fjármögnunar á hagstæðari kjörum.

Að auki er í frumvarpinu að finna heimild til að krefjast fastrar bótagreiðslu vegna innheimtukostnaðar, svokallaðra innheimtubóta sem nema 6.700 kr. Nánar verður kveðið á um útfærslu þessarar heimildar í reglugerð en gert er ráð fyrir að innheimtubætur komi til frádráttar öðrum kostnaðarinnheimtuaðgerðum, svo sem fruminnheimtu, milliinnheimtu eða löginnheimtu.

Til viðbótar er í frumvarpinu tiltekið hvaða skilmálar í verslunarviðskiptum skuli teljast vera bersýnilega ósanngjarnir. Er þar átt við samningsskilmála sem undanskilja vexti vegna greiðsludráttar og auk þess er gengið út frá því að skilmálar sem undanskilja innheimtubætur mundu teljast bersýnilega ósanngjarnir nema sýnt væri fram á annað. Þá er fjallað um önnur sjónarmið sem hafa má til hliðsjónar við mat á því hvort samningsákvæði skuli teljast bersýnilega ósanngjörn. Rétt er auk þess að geta að frumvarpið kemur ekki í veg fyrir að aðilar í verslunarviðskiptum semji um að greiða skuldir sínar með afborgunum samkvæmt greiðsluáætlun og er í rauninni frekar hvatt til þess heldur en að láta greiðsludrátt verða að veruleika. Skal þá fara með hverja gjaldfallna greiðslu í samræmi við frumvarpið þannig að greiðslufrestur og dráttarvextir samkvæmt ákvæðum þess eigi við.

Að lokum gerir frumvarpið ráð fyrir hækkun vanefndaálags við útreikning dráttarvaxta í verslunarviðskiptum. Um er að ræða viðbót við ákvæði 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu þannig að í tilfelli verslunarviðskipta verði vanefndaálag átta hundraðshlutar en ekki sjö eins og í núgildandi lögum. Hér er um að ræða lágmarkskröfu um hlutfall vanefndaálags en aðilar geta samið um hærri prósentu. Dráttarvextir eru samtala grunndráttarvaxta sem í dag eru 6% samkvæmt ákvörðun Seðlabankans og vanefndaálag sem er 7% samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Eru dráttarvextir af peningakröfum því nú 13% en frumvarpið gerir ráð fyrir að dráttarvextir verði 14% hvað varðar verslunarviðskipti. Þessi hækkun mun ekki taka til neytendaviðskipta heldur aðeins til verslunarviðskipta milli lögaðila eða lögaðila og hins opinbera.

Grundvallaratriði með þessu frumvarpi eru bættir viðskiptahættir, ekki síst af hálfu ríkisins auk skýrari og betri úrræða fyrir kröfuhafa til að fá greiðslu. Slíkum reglum ber að fagna en þær munu að líkindum bæta lausafjárstöðu fyrirtækja, styðja við verslunarviðskipti almennt og jafna samkeppnisstöðu aðila á markaði. Þá eru kröfur þær sem gerðar eru til opinberra aðila í samræmi við reglur Ríkiskaupa um að greitt skuli fyrir vörur og þjónustu innan 30 daga frá dagsetningu reiknings. Gert er ráð fyrir að frumvarpið leiði aðeins til verulega takmarkaðs kostnaðar fyrir bæði lögaðila og opinbera aðila þar sem flest greiðslukerfi sem eru í notkun í dag munu ráða við breytingar í samræmi við frumvarpið og slíkar breytingar er hægt að framkvæma án tilkostnaðar.

Þá er rétt að ítreka að með frumvarpinu er ekki verið að girða fyrir samningsfrelsi einkaaðila í verslunarviðskiptum heldur eru hér á ferðinni viðmiðunarreglur sem eru frávíkjanlegar að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem mun leiða til virkari verslunarviðskipta, betra greiðsluflæðis og bættra viðskiptahátta. Um er að ræða tilskipun sem nauðsynlegt er að taka upp í íslenskan rétt en Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar höfðað mál á hendur íslenska ríkinu vegna skorts á innleiðingu tilskipunarinnar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinnur nú ásamt utanríkisráðuneytinu að vörn í málinu. Það er því von mín að frumvarp þetta fái hraða meðferð af hálfu þingsins vegna stöðunnar sem þar er uppi.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar og 2. umr.