144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

154. mál
[17:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vernd afurðarheita sem vísar til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu og er á þskj. 157, 154. mál.

Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en það er byggt á tillögum starfshóps sem skipaður var fulltrúum Einkaleyfastofunnar, Bændasamtaka Íslands, Neytendasamtakanna og Samtaka iðnaðarins ásamt reglugerð ESB, Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 1151/2012, eða frá 21. nóvember 2012, um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir og matvæli, og sambærilegri löggjöf í Noregi.

Markmið frumvarpsins er að vernda afurðarheiti sem vísar til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Um er að ræða nýja heildarlöggjöf hér á landi en vernd þessi er þekkt víða erlendis þar sem heitum landbúnaðarafurða eins og Gorgonzola-osti, Basmati-hrísgrjónum og Limfjords-gulrótum er veitt sérstök vernd, vernd sem felur í sér að öðrum framleiðendum sambærilegra afurða úr tilteknum hráefnum á tilteknu landsvæði eða eftir tiltekinni hefð er óheimilt að nota skráð afurðarheiti nema að uppfylltum skilyrðum frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að hópur framleiðenda sæki saman um skráningu á afurðarheiti en einnig er mögulegt að einstakur framleiðandi sæki um skráningu, t.d. ef hann er eini framleiðandinn á skilgreindu landsvæði.

Meðferð umsókna verður í höndum Matvælastofnunar og er greitt gjald fyrir hverja umsókn sem rennur óskipt til Matvælastofnunar upp í þann kostnað sem til fellur um meðferð umsóknanna. Matvælastofnun tekur ákvörðun um það hvort afurðarheiti skuli hljóta skráningu samkvæmt lögunum og skal stofnunin afla umsagna frá Einkaleyfastofu og Samtökum atvinnulífsins auk þess sem stofnuninni er veitt heimild til að leita umsagna annarra sérfræðinga þegar við á. Áður en Matvælastofnun tekur ákvörðun um að heimila eða hafna skráningu heitis gefst utanaðkomandi aðilum færi á að andmæla skráningu heitis. Þá hefur Matvælastofnun ásamt heilbrigðisnefndum sveitarfélaga einnig eftirlit með framkvæmd laganna í samræmi við annað eftirlit samkvæmt lögum um matvæli.

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að erlend heiti afurða geti hlotið vernd hér á landi, annars vegar á grundvelli beinnar skráningar og hins vegar á grundvelli gagnkvæmnissamnings. Ekki er gerður greinarmunur á því hvor leiðin er farin en skilyrði fyrir skráningu er að heiti afurðar upplýsi skilyrði frumvarpsins og lúti eftirliti í upprunalandi. Þá er gert ráð fyrir að frumvarpið gildi einnig um vernd afurðarheita fyrir léttvín og brennda drykki sem vísar til landsvæðis. Reglur um vernduð heiti fyrir þessar afurðir eru hluti af EES-samningnum. Er þannig gert ráð fyrir að þær reglur verði innleiddar í heild sinni og er lögð til reglugerðarheimild til handa ráðherra í þeim tilgangi.

Einnig er tekið á öðrum atriðum í frumvarpinu, svo sem stjórnvaldsviðurlögum og refsi- og bótaábyrgð vegna brota gegn ákvæðum frumvarpsins, auk þess sem sérstakur kafli fjallar um tengsl skráðra afurðarheita við vörumerki en slíkt er nauðsynlegt vegna skörunar við vörumerkjarétt. Í frumvarpinu er því einnig tillaga um breytingu á einu ákvæði vörumerkjalaga, nr. 45/1997, til samræmis við ákvæði frumvarpsins um tengsl vörumerkja og skráðra afurðarheita.

Verði frumvarpið að lögum er talið að löggjöfin geti styrkt stöðu íslenskra afurða og falið í sér viðurkenningu á sérstöðu innlendrar framleiðslu í samkeppni við innfluttar vörur. Erfitt er að leggja mat á hversu margar umsóknir um skráningu eru líklegar til að berast en í Noregi hafa alls 25 afurðarheiti hlotið skráningu frá árinu 2002.

Þá er rétt að árétta hér að frumvarpið tekur ekki til almennra upprunamerkinga matvæla heldur er um að ræða tiltekið gæðakerfi fyrir afurðir sem uppfylla skilyrði frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.