144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil inna hæstv. fjármálaráðherra nokkuð eftir forgangsröðun í nýju fjárlagafrumvarpi. Þegar maður horfir núna á þetta frumvarp vekur sérstaka athygli hversu hart er gengið fram gagnvart framhaldsskólakerfinu. Nemendaígildum er fækkað um 916. Það getur verið að þetta kalli á niðurskurð í kennarafjölda um nærri 100 manns. Þetta leggst þyngst á litlar, framsæknar menntastofnanir á landsbyggðinni og sumar þeirra eru að fást við niðurskurð nemendaígilda upp á allt að 20%. Skólaárið fellur ekki saman við fjárlagaárið þannig að ef það á að vera einhver leið að mæta 20% samdrætti af þessum toga á næsta ári verða þessir skólar strax að segja upp kennurum.

Þar við bætast þau tíðindi í fjárlagafrumvarpinu að það sé lokað á nemendur yfir 25 ára aldri í framhaldsskólakerfinu. Við höfum stært okkur af því á síðustu árum í kjölfar hruns að hafa getað byggt upp í framhaldsmenntun þjóðarinnar, að hafa getað gert ýmislegt til þess að brúa bilið sem er allt of mikið milli okkar og annarra þjóða í framhaldsmenntun.

Í verknámi er meðalaldur nemenda 25,2 ár. Víða á landsbyggðinni er hann enn hærri. Þessi ákvörðun mun hafa þung og erfið áhrif á verknám í landinu.

Að síðustu, vinnustaðanámssjóður er lagður af sem hefur skapað ný tækifæri í verknámi, aukið líkur á því að fyrirtæki sjái sér hag í því að hafa fólk í vinnu sem jafnframt er í verknámi. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hverju sætir þessi sérstaka aðför að framhaldsskólakerfinu?

Það er eiginlega ótrúlegt þegar allt þetta er talið saman hversu hart gengið er fram. Þegar menn lýsa því yfir að búið sé að ná jafnvægi í ríkisfjármálum, eðlilegt ástand hafi skapast, hvers vegna er gengið svona fram gagnvart framhaldsskólunum?