144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eins og sjá má í fjárlagafrumvarpinu hækkar heildarfjárveiting til málaflokksins framhaldsskólar frá gildandi fjárlögum. Því er hér haldið fram að sérstaklega sé sótt að framhaldsskólastiginu með frumvarpinu, en á þessu ári bættum við rekstrargrunn framhaldsskólanna með sérstakri fjárveitingu til þess að taka á rekstrarerfiðleikum sem ný ríkisstjórn tók í arf frá síðustu árum. Þá komum við með sérstakt 400 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrunn framhaldsskólastigsins.

Það er hins vegar alveg rétt að í menntamálum er unnið að því að stytta nám til háskólaprófs til þess að við Íslendingar færumst nær því sem gildir til dæmis hjá OECD-þjóðum og öðrum þeim sem við viljum bera okkur saman við og að fólk muni þannig í framtíðinni ljúka námi eftir til dæmis háskólagöngu fyrr en átt hefur við á Íslandi. Það mun auka framleiðni í landinu og er gríðarlega stórt og mikið menntamál en líka efnahagsmál.

Varðandi þá sem eru 25 ára er ekki rétt að það sé með neinum hætti verið að snerta þá sem eru í verknámi og hafa náð þessum aldri. Við erum hins vegar að fjalla um það í tengslum við bóklega námið hjá þeim sem eru 25 ára og eldri að það kunni að vera aðrar leiðir fyrir þá sem vilja sækja sér aukna menntun og hafa náð þessum aldri en sú að fara í framhaldsskóla, t.d. að þeir eigi þá frekar kost á því að fara í símenntun á vegum háskólanna og undirbúa sig þannig fyrir mögulegt háskólanám í framtíðinni. Þetta er ekki ákvörðun sem með neinum hætti er ætlað að þrengja að verknáminu í landinu.