144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

vangoldinn lífeyrir hjá TR.

[15:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nýverið tjáði umboðsmaður Alþingis sig um afgreiðslu á máli örorkulífeyrisþega hjá Tryggingastofnun ríkisins og kemur í ljós að hafður hefur verið réttur af viðkomandi í afgreiðslunni hjá Tryggingastofnun án lagastoðar hvað varðar bætur aftur í tímann. Þessi einstaklingur hefur sótt mál sitt, fyrst hjá Tryggingastofnun og síðan til áfrýjunarnefndar án árangurs en nú hefur þetta álit umboðsmanns litið dagsins ljós og Tryggingastofnun gerir ekki ágreining um þá niðurstöðu.

Þá bregður hins vegar svo við að Tryggingastofnun segir að hún muni leiðrétta þetta gagnvart viðkomandi einstaklingi en aðrir lífeyrisþegar hjá Tryggingastofnun sem hafi ekki fengið rétt sinn þurfi að sækja mál sitt hver og einn. Ég verð að segja að mann undrar nokkuð þessi yfirlýsing frá Tryggingastofnun.

Almannatryggingar eru fundnar upp til þess að fólk njóti jafns réttar og þegar afgreiðsla stofnunarinnar hefur verið röng gagnvart þessum tiltekna einstaklingi og það er viðurkennt skyldi maður ætla að stofnunin brygðist við með því að leiðrétta sambærileg atriði gagnvart öðrum lífeyrisþegum sem hafa verið meðhöndlaðir með sama hætti hjá stofnuninni en að það sé ekki undir hverjum og einum komið að reka mál gagnvart stofnuninni. Sannarlega eiga borgararnir ekki að þurfa að búa við það, og kannski enn síður margir örorkulífeyrisþegar sem sumir eru ekki í færum til að fylgjast með opinberri umræðu, aðrir ekki í færum til þess að ráða sér lögfræðinga eða sækja mál gagnvart opinberum stofnunum.

Ég spyr þess vegna félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hún muni ekki beita sér fyrir því gagnvart Tryggingastofnun að þetta atriði verði leiðrétt gagnvart öllum þeim sem brotið hefur verið á með þessum hætti hjá Tryggingastofnun, (Forseti hringir.) að það sé ekki undir hverjum og einum lífeyrisþega komið að sækja (Forseti hringir.) þennan sjálfsagða rétt sinn.