144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[15:52]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að hefja þessa umræðu um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í mínum huga er hlutverk LÍN eins og það er skilgreint, að tryggja tækifæri til náms án tillits til efnahags, lykilatriðið í allri umræðu um lánasjóðinn, þannig að það sé leiðarljós okkar við allar breytingar á lögum, umgjörð og reglum sjóðsins. Eins og staðan er núna, og menntamálaráðherra kom inn á áðan, er í raun hvorki ljóst hvað hver og einn fær í styrk gegnum lánasjóðinn né hvað hverjum og einum er ætlað í styrk. Þarna er því er afskaplega mikilvægt að bæta með jöfnun tækifæra til náms að leiðarljósi.

Við fyrstu sýn sé ég ekki rökin fyrir því að lán falli niður við 67 ára aldur. Mín sýn á það er að með því sé í raun verið að velta kostnaði eldri kynslóða yfir á námsmenn dagsins í dag. En það kunna að vera þar önnur rök. Ég hef líka velt fyrir mér, eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir kom inn á áðan, hvort við gætum einhvern veginn komist út úr yfirdráttarlánakerfinu sem ég held að sé hindrun við að komast að markmiðinu. Eins er mikilvægt í þessu að við veltum fyrir okkur hvata til að greiða námslán niður á einhvern hátt hraðar en nú tekst.