144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[16:01]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram. Mér finnst að það frumvarp sem unnið var á síðasta kjörtímabili, en náði ekki fram að ganga, hafi verið mjög vel undirbyggt. Gríðarlega mikil vinna var lögð í það og mikið samtal átti sér stað. Ég vil inna ráðherra eftir því, eins og frummælandi gerði, hvað það er sem stingur sérstaklega í stúf, hvað það er sem hann getur ekki sætt sig við úr því frumvarpi.

Við stjórnmálamennirnir getum alveg leikið okkur með það hvernig okkur finnst að Lánasjóður íslenskra námsmanna eigi að vera, hverjir eigi að fá lán og hvaða nám eigi að vera lánshæft. En eins og ég sagði áðan varðandi lánhæfismatsnefndina sem lögð var þar til þá tel ég það vera miklu heilbrigðara kerfi og gegnsærra eins og fólki hefur orðið tíðrætt um hér.

Við erum líka ólík mjög mörgum Norðurlöndum og Evrópulöndum þegar kemur að því til hvers er lánað. Við lánum í miklu víðtækara nám en þar er gert, en hins vegar var verið að reyna að koma til móts við það, við framlagningu síðasta frumvarps, þar sem átti að reyna að fá þessa nefnd til að meta það og einnig áttu að vera ívilnanir sem ráðherra hefði til að spila úr. Ef það vantaði til dæmis í tiltekna stétt eða eitthvað slíkt þá væri hægt að mæta því af hálfu ráðherra, þ.e. varðandi lánshæfið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar er verið að vinna þetta frumvarp og hverjir koma að því? Ætlar hann að takmarka út frá aldri, þ.e. að þeir fái ekki lán sem eru komnir á ákveðinn aldur? Hyggst ráðherra leggja til einhverjar breytingar varðandi ábyrgðir, og þá við aldur eða við eitthvað annað?