144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

[16:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir umræðurnar. Það þarf ekki að koma á óvart að við erum ósammála um ýmsa hluti hvað varðar Lánasjóð íslenskra námsmanna sem er félagslegur jöfnunarsjóður, til þess að efla menntun þjóðarinnar og tryggja aðgengi okkar allra að menntun.

Ég er sammála því sem fram hefur komið í máli margra að gegnsæi í styrkjum í námslánakerfinu sé mikilvægt, en í millitíðinni verðum við að taka á vanda þeirra sem sjá fram á að geta ekki lokið greiðslu námslánaskulda á starfsævinni. Hæstv. ráðherra sagði að nám ætti að skila tekjuauka á starfsævinni og það væri því óeðlilegt að skera þau niður við 67 ára aldur. Þá er mikilvægt að hafa í huga að þeir sem ekki ná að greiða upp námslán sín á starfsævinni ná því ekki vegna þess að þeir hafa ekki haft nægilega háar tekjur og hafa því lægri lífeyristekjur en þeir sem náðu að greiða upp lánin sín. Við viðhöldum þannig tekjumismuninum alla ævi og veltum þar með kostnaði af menntun yfir á tekjulægri ellilífeyrisþega þessa lands.

Það er mikilvægt að hafa í huga að við 67 ára aldur er fólk búið að nýta þá menntun til tekjuöflunar sem það aflaði sér og einhverjir eitthvað seinna, en opinberir starfsmenn eru a.m.k. búnir að því og það eru þá skilaboð til kennara að ráðherra ætli að tryggja þeim það há laun (Forseti hringir.) að þeir nái að greiða upp námslánin sín. Svo er ekki um þá kennara sem hófu nám árið 2000 en ráðherra er væntanlega með breytingu í farvatninu varðandi launakjör þeirra.