144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd.

43. mál
[16:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í framsögu fyrirspyrjanda kom fram að frá því að fyrirspurnin hefði verið lögð fram hefði sumt af því sem spurt er um verið skýrt opinberlega. Fyrsti fundur fjármálastöðugleikaráðs fór fram í fjármála- og efnahagsráðuneytinu miðvikudaginn 10. september sl. Þar voru til umræðu drög að starfsreglum ráðsins sem rituð voru í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en gerð starfsreglna hefur kannski verið ein ástæða þess að fyrsti fundur var ekki haldinn fyrr. Það er mikilvægt að huga að því með hvaða hætti ráðið setur sér þessar starfsreglur.

Á fundinum var samþykkt að vinnuhópur taki við þessum drögum og vinni þau frekar með athugasemdir ráðsmanna til hliðsjónar þannig að málið verður tekið fyrir að nýju á næsta fundi ráðsins sem ráðgert er að verði í október.

Ráðherra hefur skipað sérfræðing í málefnum fjármálamarkaðar í kerfisáhættunefnd, Björn Rúnar Guðmundsson, sem jafnframt er yfirmaður efnahagsrannsókna hjá Hagstofunni. Líkt og fram kom hjá fyrirspyrjanda var fyrsti fundur kerfisáhættunefndar haldinn 2. október sl.

Varðandi það með hvaða hætti nefndin gerir grein fyrir störfum sínum opinberlega hefur verið birt á vefsvæði ráðsins, fjarmalastodugleikarad.is, meginefni fyrsta fundar fjármálastöðugleikaráðs. Það er stefnt að því að ráðið geri Alþingi grein fyrir störfum sínum fyrir lok haustþings 2014.

Það liggur fyrir að þorri þeirrar vinnu sem fram fer á vegum ráðsins er unninn af sérfræðingum kerfisáhættunefndarinnar á grundvelli gagna sem meðal annars Seðlabankinn getur lagt til með sínu fólki, og Fjármálaeftirlitið eftir atvikum. Í þeim undirbúningi sem átt hefur sér stað hafa menn leitað fordæma að utan og að sjálfsögðu líka í fyrri reynslu að því marki sem við höfum unnið starf af þessum toga innan stjórnkerfisins fram til þessa. Ég tel að við höfum stigið rétt skref með því að koma fjármálastöðugleikaráðinu á fót og að það gegnsæi sem við höfum ákveðið að skuli ríkja um störf ráðsins muni gagnast okkur sem grundvöllur málefnalegrar umræðu um þessi mikilvægu mál í efnahagslífi okkar í framtíðinni. Starfið er svo sem rétt að fara af stað og eins og áður segir er gert ráð fyrir því að ráðið geri þinginu grein fyrir störfum sínum á haustþinginu um leið og starfsreglur hafa verið settar og störf ráðsins, og kerfisáhættunefndarinnar kannski sérstaklega, komin í fastan farveg. Þá má búast við að þessi mál skýrist enn frekar.