144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd.

43. mál
[16:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég var í gær að lesa erfiða gátu sem fjallar um 100 græneygða dreka á eyðieyju. Þeir fengu nýjar upplýsingar um það að einn þeirra væri græneygður. Sú þekking breytti algjörlega forsendunum sem þeir þurftu að fara eftir. Þið getið gúglað þetta en ég ætla að koma með smávegis „spoiler alert“. Samkvæmt þessum lögum eiga aðilarnir í fjármálastöðugleikaráði, hæstv. ráðherra, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins, að gefa Alþingi og þjóðinni upplýsingar — nema þær ógni fjármálastöðugleika. Þá verða þeir að halda þeim til hliðar ef ég skil þetta rétt.

Þá ætla ég að gefa ráðherra upplýsingar um að fyrir héraðsdómi er núna í gangi dómsmál sem verður tekið fyrir 24. október um hvort verðtryggð húsnæðislán hafi verið löglega útfærð. Það dómsmál verður leitt til lykta og verður að dæma á Íslandi á næsta ári. Þegar ráðherra, sem situr í fjármálastöðugleikaráði, veit (Forseti hringir.) að þetta ógnar að sjálfsögðu fjármálastöðugleika í landinu verður hann að láta okkur vita af því — nema það ógni fjármálastöðugleika. Ef við fáum (Forseti hringir.) ekki þessar upplýsingar frá fjármálastöðugleikaráði hljótum við að álykta að þetta ógni fjármálastöðugleikanum í landinu, að því gefnu (Forseti hringir.) að ég skilji lögin rétt.