144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd.

43. mál
[16:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna framtakinu í sjálfu sér en hef alltaf eilitlar áhyggjur af því að við höfum ekki lært eina lexíu af hruninu og þeim árum sem þar á undan liðu og það er sú firra sem tíðkaðist lengi vel fyrir hrun að líta á jákvætt umtal sem hluta af leið til þess að viðhalda stöðugleika í hagkerfinu. Þetta þykir mér fullkomin bilun. Ég man að á sínum tíma voru menn skammaðir nokkuð mikið ef þeir voru mjög svartsýnir eða vöruðu mikið við einhverju sem þó mátti (Gripið fram í.) vera augljóst fyrir fram að mundi fyrr eða síðar hrynja. Því þykir mér mikilvægt að allir sem komu að þessu starfi átti sig á því að við þurfum að geta talað um hlutina tæpitungulaust. Efnahagurinn verður að þola smásvartsýni. Hann verður að þola viðvörunarorðin.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.