144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd.

43. mál
[16:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég var svolítið hissa á þessu svari hjá hæstv. ráðherra. Ég minnist þess að hæstv. ráðherra hélt hér ræðu sem mér þótti alveg mögnuð í umræðum um fyrstu stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þá sagði hann að gjaldeyrishöftin væru eins og rauð blikkandi aðvörunarskilti yfir Íslandi sem allir væru hræddir við. Síðan hefur pólitísk umræða að verulegu leyti snúist um það með hvaða hætti eigi að afnema þau og með hvaða hætti eigi að semja við kröfuhafa. Herra trúr, þar hlýtur fjármálastöðugleikaráð að koma að. Þess vegna rekur mig í rogastans að heyra að kerfisáhættunefnd hafi ekki komið saman til fyrsta fundar fyrr en alveg nýlega, sem sagt í síðustu viku, 2. október.

Herra forseti. Hvers konar sleifarlag er þetta? Eins og aðrir vona ég að hæstv. ríkisstjórn nái farsælli lendingu í þessu máli, en mér finnst allt of lítið gert af því að upplýsa okkur um það. Nú sé ég að það er vegna þess að það er ekkert að gerast. Fjármálastöðugleikaráð var ekki skipað fyrr en í síðustu viku.