144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd.

43. mál
[16:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um þessi mál og bendi á að við erum að vinna hérna með nýleg lög og feta okkur inn í nýtt fyrirkomulag þó að málin sem til umræðu eru á þessum vettvangi hafi svo sem fengið sína umræðu með öðru formi annars staðar áður. Ég vek athygli á helstu verkefnum fjármálastöðugleikaráðs. Þetta er vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika eins og segir í lögunum og á þessum vettvangi er mótuð hin opinbera stefna um fjármálastöðugleika. Verkefni fjármálastöðugleikaráðs eru að meta efnahagslegt ójafnvægi, skilgreina mögulegar aðgerðir, en ekkert ráð af þessum toga, ekkert skipulag sem við komum okkur upp, mun tryggja að við munum búa við fjármálastöðugleika um ókomna tíð. Við verðum þó örugglega betur í stakk búin, ef vel tekst til, við að fást við ytra ójafnvægi í efnahagsmálum sem getur leitt til óstöðugleika.

Varðandi verðtrygginguna geta menn verið alveg rólegir yfir því máli vegna þess að það hefur verið mjög vandlega skoðað af bæði FME og í ráðherranefndum innan stjórnkerfisins. Menn eru með augu á því máli og það er engin ástæða til að ætla að fjármálastöðugleikaráðið muni ekki horfa til þess máls eftir því sem þörf krefur.

Varðandi (Forseti hringir.) gjaldeyrishöftin er í gildi alveg sérstakt stjórnskipulag sem meðal annars felur í sér samráð við þingið um það hvernig þeim málum vindur fram.