144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

virðisaukaskattur af útleigu rafmagnsbíla.

49. mál
[16:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég gat ekki betur heyrt í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hér áðan en að það hefði orðið góð þróun í þessu í dag. Ég spurði einmitt út í sama fyrirbæri á fundi með ráðherra í morgun í efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. hvort ekki væri hugsanlegt að framlengja heimild í bráðabirgðaákvæði XXIV um að fella áfram niður virðisaukaskatt af kaupum á rafbílum. Nú heyrist mér ráðherra telja að svo væri, en hann lýsti sig (ÖS: Hann fer stundum eftir þér.) vel að merkja jákvæðan í morgun í að skoða það mál.

Ég verð líka að segja, þrátt fyrir alveg prýðilega kerfisræðu hæstv. fjármálaráðherra hér áðan um undanþágur og ekki undanþágur í virðisaukaskatti, að við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að þetta hefur gengið hægt hjá okkur. Orkuskipti hafa gengið hægt þó að þau séu aðeins komin af stað á nokkrum formum. Einu sinni trúðu menn á vetni, síðan á metan og nú er margt sem bendir til þess, sem kæmi auðvitað Íslandi langbest, að tæknin verði á sviði rafmagnsbíla. Þá er alveg borðleggjandi hagstætt fyrir Ísland að hlúa að slíkri þróun. Ég held að það (Forseti hringir.) sem þurfi að gera sé að framlengja ekki ákvæðið bara eitt ár í senn, svo ágætt sem það er og auðvitað (Forseti hringir.) hefðu ýmsir mátt hafa það í huga, heldur lögfesta tiltekinn ramma einhver ár fram í tímann. Það þarf að fá niðurstöðu í þetta mál (Forseti hringir.) strax þannig að einhver spekúlasjón í aðdraganda áramóta fari ekki í gang.