144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

virðisaukaskattur af útleigu rafmagnsbíla.

49. mál
[16:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir þá þörfu ábendingu að leiga á rafbílum eigi að njóta sömu kjara og kaup á þeim og harma um leið þá afstöðu sem hæstv. fjármálaráðherra lýsti hér. Virðisaukaskattskerfið á að vera skilvirkt, segir hæstv. ráðherra. — Já, en að veita tímabundna undanþágu getur verið býsna skilvirkt.

Ég man ekki betur en að ég, sem formaður efnahags- og skattanefndar og síðar efnahags- og viðskiptanefndar, hafi ítrekað í góðri samvinnu við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hæstv. ráðherra sennilega líka sett undanþágur um umhverfisvæna bíla og framlengt þær ítrekað og að alveg sömu rök eigi við um þessa leigu og hefur átt við um aðrar þær undanþágur sem við höfum veitt.

Hugmyndafræðilega kemur mér það á óvart að formaður Sjálfstæðisflokksins telji að það eigi fremur að leggja á þess hærri skatta en senda menn í styrkjabeiðni í einstök fagráðuneyti til að geta borgað skattana. Ég hélt að áherslur Sjálfstæðisflokksins væru að skapa almenn skilyrði (Forseti hringir.) fyrir þróun en ekki að menn þyrftu að sækja styrki til fagráðuneyta í eðlilegri þróun eins og þessari.