144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

virðisaukaskattur af útleigu rafmagnsbíla.

49. mál
[16:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Virðisaukaskattur á útleigu á rafmagnsbílum — hæstv. ráðherra segir að hann vilji sem fæstar undanþágur þegar kemur að virðisaukaskattskerfinu sökum þess að slíkar undanþágur minnki skilvirkni í kerfinu. Þá skil ég samt sem áður ekki hvers vegna það á að halda áfram með bráðabirgðaundanþágur. Ég sé ekki alveg muninn á því að það sé í lagi að hafa undanþágur á virðisaukaskatti þegar kemur að kaupum á rafbílum en ekki þegar kemur að leigu. Ég sé ekki hver málefnalegi munurinn er.

Svo er annað. Þegar kemur að rafmagnsbílum og sköttum munum við klárlega þurfa að taka um það stærri umræðu á næstunni. Batterísþróun er orðin svo gríðarlega hröð. Í ársfjórðungslegri tækniskýrslu The Economist fyrir tveimur árum minnir mig að hafi komið fram að það séu komin batterí sem hægt sé að fullhlaða á tíu mínútum. Þetta er bara það sem við munum sjá, þau munu taka meira, þau munu drífa lengra og menn verða fljótari að hlaða þau. Þannig mun allt skattkerfið, sem er núna uppsett (Forseti hringir.) til þess að fjármagna vegakerfið, þurfa að horfa til þess þegar rafbílavæðingin fer á fullt hvernig við ætlum að fjármagna það. Það (Forseti hringir.) verður því áhugavert að fylgjast með skattkerfinu í stærra samhengi hvað þetta varðar.