144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

virðisaukaskattur af útleigu rafmagnsbíla.

49. mál
[17:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta hefur verið fín umræða. Mig langar að láta þess getið undir lok hennar að það vandamál er enn óleyst að rafmagnsbílarnir eru allt of dýrir. Það er ekki nema vegna þess að við veitum þeim verulegar ívilnanir við innflutning til landsins sem þeir eru raunhæfur valkostur. (Gripið fram í.) Þar höfum við gengið svo langt í þeim efnum að það sem í mörgum öðrum löndum þykja algerar lúxusbifreiðar eru bara nokkuð hagstæður valkostur í bílaflotanum á Íslandi, þ.e. þessir hraðskreiðu, flottu, sportlegu rafmagnsbílar eru samkeppnishæfir hér við bíla á Íslandi sem þeir eru ekki samkeppnishæfir (Gripið fram í: Af hverju …?) við í mörgum öðrum löndum.

Ef það væri svo að við værum almennt bara með rafmagnsbíla á Íslandi ættum við ekki að eiga umræðuna hér á þessum nótum vegna þess að við værum að tala um þá hluti sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson kom inn á, sem er hvaða gjaldakerfi við eigum að vera með vegna innflutnings á bifreiðum af þessum toga. Þar get ég tekið undir með hv. þingmanni að ég tel að við munum innan skamms standa frammi fyrir allt, allt öðrum veruleika.

Hér hefur lítið verið rætt um orkuskipti í öðrum þáttum en þessum almennu samgönguþáttum. Við vitum að verulegur hluti losunar á Íslandi er frá sjávarútveginum og skipaflotanum. Skipaflotinn á Íslandi er ábyrgur fyrir mjög stórum hluta þeirrar losunar sem við erum að berjast gegn. Endurfjárfesting eða nýsmíði skipa í þeim flota skilar mun minni losun, sparneytnari vélum og í alla staði hagkvæmari skipum. Það er því mikilvægt að við búum sjávarútveginum hagstæð skilyrði til að fjárfesting haldi áfram (Gripið fram í.) fyrir þau sömu markmið og hér hafa verið til umræðu. (Forseti hringir.)