144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

uppbygging á Kirkjubæjarklaustri.

46. mál
[17:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu, en það var bara ekki mjög langt. Veruleikinn er sá að það er eitt og hálft ár liðið frá stjórnarskiptum og núverandi ríkisstjórn verður að horfast í augu við það að hún ber ábyrgð á að hverfa frá þeirri stefnu sem hafði verið mótuð og var að því komið að hrinda í framkvæmd, þ.e. verulega myndarlegri uppbyggingu þar sem menn reyndu að sameina kraftana á þessu veika svæði og byggja á styrkleikum þess; nálægðinni við Vatnajökulsþjóðgarð, möguleikum í ferðaþjónustu og að nýta náttúru svæðisins og sérstöðu í þágu vísindarannsókna sem og listamenn úr röðum heimamanna eða ættaðir þaðan o.s.frv. Það veitir ekki af að sameina kraftana. Það var það góða við þessar hugmyndir.

Jú, það er auðvitað alltaf ágætt að setja nefnd í mál, en þegar nefnd tekur til starfa einu og hálfu ári eftir stjórnarskipti þegar viðfangsefnið liggur tiltölulega skýrt fyrir þá þarf að taka afstöðu til þessa: Ætla menn að fylgja þeirri stefnu sem hefur verið mótuð, unnin af heimamönnum og að frumkvæði þeirra að miklu leyti, allt frá því Kirkjubæjarstofa er stofnuð 1997 af miklum dugnaði heimamanna í samstarfi við ýmsa góða aðila? Þá þarf þess að sjá stað t.d. í fjárlögum.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra: Er þess að vænta að þetta nefndarstarf gangi svo rösklega fyrir sig að við höfum um miðjan nóvember í síðasta lagi vísbendingu um það eða niðurstöður þannig að hægt verði að taka þær til greina í sambandi við afgreiðslu fjárlaga?

Hvert ár sem fer í frekari skoðun á þessu máli er mjög dýrt. Það verður maður áþreifanlega var við þegar maður heimsækir Kirkjubæjarklaustur og heyrir hljóðið í heimamönnum.

Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra geti gefið okkur eitthvað undir fótinn með það að við séum ekki búin að sjá hið síðasta orð í núverandi fjárlagafrumvarpi eins og það lítur út með engar fjárveitingar ætlaðar í þetta.