144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

matarsóun.

47. mál
[17:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina get ég sagt að ég er sammála hv. fyrirspyrjanda í því að það skiptir máli hvað stjórnvöld gera, þau bera sannarlega ábyrgð líka.

Stutta svarið við því hversu miklum mat er hent á Íslandi er það að það er ekki vitað nákvæmlega. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að þriðjungur matvælaframleiðslu, um 1,3 milljarðar tonna matvæla, fari til spillis. Í nágrannalöndum okkar er hent um 100 kílóum af mat á hvern íbúa á ári. Ef miðað er við þær tölur má gera ráð fyrir að stærðargráðan sé 30 þús. tonn; af mat á Íslandi sem hægt hefði verið að nýta en er hent.

Á degi umhverfisins í ár, 25. apríl, stóð umhverfis- og auðlindaráðuneytið fyrir málþingi um matarsóun undir yfirskriftinni Hættum að henda mat. Á málþinginu, sem var gríðarlega vel sótt, var fjallað um umfang, ástæður og afleiðingar matarsóunar, hvað stýrir neytendum þegar kemur að kaupum á mat, hvernig nýta megi betur hráefni við matvælaframleiðslu, hvernig draga megi úr matarsóun í mötuneytum og þá vitundarvakningu sem hefur orðið hjá almenningi og stjórnvöldum á þessu sviði. Til að fylgja eftir málþinginu höfum við verið að skoða þessi mál í ráðuneytinu og hef ég nú skipað enn einn starfshópinn, og verð að gleðja hv. þingmann með því, sem móta skal tillögur um hvernig draga megi úr sóun matvæla. Hópnum er ætlað að kortleggja vandann og benda á hvetjandi leiðir til að nýta hráefni betur við vinnslu matvara sem og fullunnar matvörur eftir að þær eru komnar til neytenda, veitingastaða, framleiðenda og söluaðila. Þá skal hópurinn leggja fram tillögur um hvernig auka megi fræðslu um áhrif umbúða og skammtastærða á matarsóun. Loks skal hópurinn meta hvaða stjórntæki geta gagnast við að draga úr matarsóun og hvort þörf sé á breytingum á lögum og reglum sem áhrif geta haft á sóun matvæla.

Í starfshópnum eru fulltrúar samtaka sem koma að fæðukeðjunni á mismunandi stigum og einnig frjálsra félagasamtaka sem láta sig málið varða. Með þessu erum við að draga mismunandi aðila að sama borði sem hafa áhrif á fæðukeðjuna hér á landi. Í starfshópnum sitja fulltrúar Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Bændasamtaka Íslands, Kvenfélagasambandsins og Landverndar en hópurinn er undir forustu ráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að hann skili tillögum sínum í apríl 2015 og að þær verði kynntar á degi umhverfisins á næsta ári.

Þess má einnig geta að í formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni 2014, Gróska – lífskraftur, er lögð áhersla á norræna lífhagkerfið þar sem eitt markmiðanna er að draga úr sóun og hámarka nýtingu og ábata af lífrænum afurðum. Norræna ráðherranefndin styrkir í ár Zero Waste, verkefni Landverndar, Kvenfélagasambands Íslands, Vakandi, Stop spild af mad-hreyfingarinnar í Danmörku og Matvett í Noregi sem hefur það markmið að vinna gegn sóun á mat á öllum stigum framleiðslunnar og neyslu. Verkefnið snýst um almenna vitundarvakningu um matarsóun. Þá má einnig geta þess að Umhverfisstofnun vinnur nú að tillögum að úrgangsforvarnastefnu til tólf ára í samræmi við nýlegar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs. Í stefnunni er höfuðáhersla lögð á að draga úr og koma í veg fyrir sóun matvæla.

Merkingar matvæla eru háðar regluverki Evrópusambandsins eins og við þekkjum. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur á þessu ári unnið að innleiðingu reglugerðar nr. 1169/2011, um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Gengið er út frá því að reglugerðin taki gildi í desember á þessu ári. Meðal ákvæða eru merkingar á geymsluþoli matvæla, þ.e. „best fyrir“ og „síðasti notkunardagur“, stundum „notist eigi síðar en“. Í reglugerð ESB kemur fram að ekki megi dreifa matvælum eftir síðasta notkunardag og er matvaran ekki talin örugg til neyslu eftir þann tíma. Í drögum að reglugerð sem innleiðir ESB-gerðina er gert ráð fyrir að sú breyting verði hér á landi að matvæli megi vera á markaði eftir að „best fyrir“-dagsetningin er liðin enda miðast sú merking við að matvæli haldi fullum gæðum en sé neysluhæf áfram. Það getur haft þau áhrif að minna verður hent af matvælum og það verður leyfilegt að dreifa þessum matvælum, meðal annars til hjálparstofnana, en nú er það ekki leyfilegt. Merkingin „notist eigi síðar en“ verður þá notuð fyrir viðkvæm matvæli sem geta verið varasöm til neyslu eftir þann tíma. Áfram verður bannað að dreifa og selja matvöru eftir síðasta notkunardag. Fyrirsjáanlegt er að merkingin „best fyrir“ verður notuð á heldur færri vörur en nú er því að fleiri vörur verða merktar með síðasta notkunardegi eða „notist eigi síðar en“.

Matvælafyrirtækin ákvarða geymsluþol og einnig notkun þessara hugtaka út frá faglegri þekkingu og eiginleikum matvælanna. Tillögur að breytingum í þá átt að fjölga matvælum sem ekki þarf að geymsluþolsmerkja eru einnig til umræðu hjá framkvæmdastjórn ESB.

Það er mjög mikilvægt að hægt sé að breyta neyslumynstri á þessum vörum sem ekki eru háðar því að örverugróður geti spillt matnum — þurrmatur, dósamatur og annað — og menn geti notað þær vörur miklu lengur en nú hefur verið. Aftur á móti þær vörur sem hugsanlega geta valdið matareitrunum vegna örverugróðurs eða einhvers slíks, þar verðum við að halda (Forseti hringir.) mjög stífum dagsetningum.