144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

matarsóun.

47. mál
[17:30]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn og fyrir að vekja athygli á hugtakinu „matarsóun“. Jafnframt þakka ég hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir tillöguna sem hún kynnti, sem hún og félagar hennar hafa lagt fram.

Ég kem hér upp sem norrænn samstarfsráðherra og vil fá að nefna einn þingmann í viðbót, Katrínu Jakobsdóttur, sem er fyrrverandi samstarfsráðherra og stóð að og undirbjó það að eitt af þremur formennskuverkefnum okkar í ár og næstu tvö árin er norræna lífhagkerfið eða Nordbio. Þar er hugað sérstaklega að hvers kyns sóun á lifandi auðlindum okkur á norðurslóðum. Undir því er matarsóun og það var skemmtilegt að sjá hvað Norðurlandaráð hefur sýnt þessu hugtaki mikinn áhuga, enda eru þær tölur sem snúa að matarsóun í heiminum alveg sláandi, menn benda á að ef við hættum að fleygja matvælum í þessum mæli getum við brauðfætt alla í heiminum.