144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

matarsóun.

47. mál
[17:35]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnalega umræðu um þetta mikilvæga mál. Það er auðvitað nokkuð augljóst að það að fara svona með heilbrigðan mat og henda honum er sóun sem ég held að hafi kannski ekki svo neikvæð áhrif á hagvöxtinn að öllu leyti.

Samkvæmt breskum upplýsingum gæti fjögurra manna barnafjölskylda sparað sér um 150 þús. kr. á ári með því að nýta þann mat sem hún kaupir innan neyslutíma og henda ekki úr ísskápnum. Ég held að allir geti litið í eigin barm og velt því fyrir sér að kannski sé í lagi að drekka mjólkina þó að hún sé komin fram á síðasta neysludag. Matvörur hafa á síðustu árum, sérstaklega á Íslandi, haft þann gæðastimpil á sér að þær endast mun, mun, mun lengur. Ég held að við þekkjum það öll.

Við eigum frekar að fara eftir eigin skynbragði en að horfa eingöngu á þessar merkingar. Merkingar matvæla eru orðnar mjög flóknar og neytendur eru í raun alveg hættir að fylgjast með þeim. Það er líka reynslusaga frá Bretlandi að aðeins um 6% neytenda þar horfðu á umhverfismerkingar þegar þeir keyptu fisk, en um 30% veltu því fyrir sér hvort hann væri ljótur eða fallegur. Mjög fáir virtust sem sagt velta því fyrir sér hvernig merkingunum var háttað.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni að þetta eigi ekki að snúast um að varan sem er komin fram yfir „best fyrir“ eigi einvörðungu að fara til hjálparsamtaka. Það er hins vegar mikilvægt að sá möguleiki sé fyrir hendi. Við öll eigum að þora að neyta þurrmatar og dósamatar þrátt fyrir að stimpillinn „best fyrir“ segi annað vegna þess að það er allt í lagi með matinn mun, mun lengur.

Það er ánægjulegt að heyra að það sé svona mikill áhugi á þessu í þinginu. Ég veit um þingsályktunartillögu hv. þingmanna o.fl. og hlakka til (Forseti hringir.) að vinna í samstarfi við þingið að þessu máli framvegis.