144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

uppsagnir og fæðingarorlof.

174. mál
[17:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra, við búum að öflugum stéttarfélögum á Íslandi, en það má sannarlega tryggja rétt starfsfólks betur, m.a. réttinn til skriflegs rökstuðnings við uppsögn, ekki bara í tilfellum þar sem fæðingarorlofið er annars vegar heldur almennt sem réttindi á vinnumarkaði.

Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir að vekja athygli á þessu því að af svörum ráðherrans má ráða að hér sé pottur brotinn, bæði í eftirlitinu og af hálfu löggjafans. Ég vil bæta við spurningar hv. þingmanns til ráðherrans: Er ekki fullt tilefni til þess að það þurfi að vera tilkynningarskylt þegar ráðist er í uppsagnir fólks sem er á leiðinni í fæðingarorlof?

Tilurð fæðingarorlofsins er þverpólitísk samstaða á löggjafarsamkomunni um að gera verulegar breytingar á samfélagsháttum og því spyr ég hvort ekki standi upp á okkur að tryggja af okkar hálfu eftirlit (Forseti hringir.) með þeirri löggjöf sem við svo stolt settum á sínum tíma.