144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

uppsagnir og fæðingarorlof.

174. mál
[17:49]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta. Eins og kemur fram í 30. gr. varðandi þessar uppsagnir er atvinnurekanda gert að tilgreina ástæður fyrir uppsögninni og það þarf að gera skriflega. Það er áhyggjuefni ef svo er sem hv. þingmaður segir, að verkalýðsfélögin ráðleggi með þessum hætti. Ég held að það sé líka verulegt áhyggjuefni sem hv. þingmaður bendir hér á, að í gangi séu hugsanlega mun fleiri mál en koma fyrir kærunefndina og dómstólana þar sem einstaklingar höfðu leitað réttar síns. Það er mjög mikilvægt atriði í fæðingarorlofslöggjöfinni að foreldrar njóti þeirrar verndar sem löggjafinn hefur sagt að þau eigi að njóta.

Ég hef núna í hyggju að skoða sérstaklega það sem snýr að lengd og þaki fæðingarorlofsins, hvernig við getum tryggt samfellu á milli loka fæðingarorlofs og þegar daggæslan tekur við hjá sveitarfélögunum. Þar undir er þá náttúrlega bæði löggjöfin um fæðingarorlofið og hvað sveitarfélögin treysta sér í varðandi uppbyggingu á daggæslu og leikskólum. Það gæti vel verið, þar sem aðilar vinnumarkaðarins munu setjast við sama borð, að þetta verði eitt af því sem þau skoði í vinnu þess hóps.