144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

skipan í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

180. mál
[17:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn um nýafstaðna skipan í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til hæstv. innanríkisráðherra sem stóð að þeirri skipan.

Ég vil fyrst taka fram að þessi fyrirspurn lýtur ekki að þeim einstaklingi sem valinn var eða kostum hans eða göllum, þvert á móti hef ég ekkert heyrt nema gott um þann einstakling, heldur lýtur þetta að meginreglunni um auglýsingaskyldu sem er gríðarlega mikilvægur grunnþáttur í stjórnskipan okkar og í því að tryggja jafnt sjálfstæði embættiskerfisins gagnvart hinu pólitíska valdi og koma í veg fyrir misbeitingu pólitísks valds.

Auglýsingaskyldan er þannig mjög mikilvægur þáttur í réttarríkinu. Hún er líka mikilvægur þáttur í að tryggja jöfn tækifæri, að allir eigi kost á að sækja um lausar stöður. Í því tilviki sem hér um ræðir er vikið frá þessari meginreglu um auglýsingaskyldu og það er almenn regla í lögfræðinni að túlka ber allar undanþágur frá meginreglu þröngt. Lagaheimildina sem virðist byggt á er að finna í ákvæði til bráðabirgða I við lög nr. 51/2014. Þar er ráðherra einungis heimilað að taka ákvarðanir um skipun eða flutning sýslumanna eða þeirra sem fara með lögreglustjórn vegna breytinga á þeim embættum sem þar var kveðið á um þegar um er að ræða ný embætti lögreglustjóra og ný lögregluembætti. Hér er ekki um að ræða nýtt embætti. Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var til, það losnaði, sá sem skipaður var í það hafði gegnt lögreglustjóraembætti annars staðar, en lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu var ekki hluti af þessum sameiningarþætti núna.

Ég vil því spyrja ráðherra hví embættið hafi ekki verið auglýst laust til umsóknar við þessar aðstæður. Til þess voru öll efnisrök. Ég fæ ekki séð að lagaheimildin í bráðabirgðaákvæðinu dugi til þess að undanskilja embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem fyrir tilviljun losnar á sama tíma og verið er að ganga frá þessum breytingum og láta almenna auglýsingaskyldu ekki gilda um það embætti.