144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt í þessum ræðustóli að mér þyki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks landsbyggðarfjandsamlegt. Ég hef fært fyrir því nokkur rök, m.a. nefnt í því sambandi að mér þyki sérstakt að Framsóknarflokkurinn talar mjög mikið um byggðastefnu og hefur ákveðið að flytja heila stofnun með manni og mús út á land, en á sama tíma sker Sjálfstæðisflokkurinn markvisst niður, m.a. í framhaldsskólum landsins og fækkar þar með störfum. Þetta hefur mikil samfélagsleg áhrif þar sem litlu skólarnir úti á landsbyggðinni þurfa að hafa mikið fyrir tilvist sinni. Þeir halda nemendum í heimabyggð, menningarlífið blómstrar, verslun og þjónusta styrkist og störfin, eins og ég sagði áðan, verða til fyrir háskólamenntað fólk. Þetta ætlar Sjálfstæðisflokkurinn núna að skera markvisst niður.

Landsbyggðarframhaldsskólarnir hafa líka haft þá sérstöðu að eldri nemendur, sérstaklega konur, hafa fengið námstækifæri aftur sem þær hefðu annars ekki fengið og stór hluti þeirra hefði ekki getað hafið nám, t.d. með því að flytja í burtu eða fara í fjarnám eða eitthvað slíkt. Fyrir utan að það er ekki á allra færi eða vilji til þess. Menntamálaráðherra sækir að landsbyggðarskólunum, hann sker niður fjarnám, hann vísar eldri nemendum inn í símenntunarmiðstöðvar sem eru ekki til þess bærar að taka við öllum eldri nemendum, fyrir utan auðvitað að þetta er miklu kostnaðarsamara.

Er undirrótin kannski sú að gera þessa litlu skóla smám saman óstarfhæfa þannig að það þurfi að sameina þá einhverjum stærri eða hreinlega leggja þá af? Er það byggðastefna Sjálfstæðisflokksins? Á sama tíma og ráðherra fjármála segir að ríkissjóður sé að rétta úr kútnum gerir hann þetta.

Ég hvet alla þingmenn og sveitarstjórnarfólk, og sérstaklega úr ríkisstjórnarflokkunum, (Forseti hringir.) til að beita sér fyrir því að landsbyggðarskólarnir haldi reisn og þar með haldist störf í sveitarfélögunum.