144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. 50% af störfunum í dag verða farin eftir 20 ár. Þetta kemur fram í The Economist, leiðaragrein á síðasta ári þar sem vitnað er í Oxford-skýrslu sama árs um það hvernig tölvur og róbótar eru að taka yfir störf. Núna fyrir helgina var The Economist aftur með leiðaragrein og sérstaka skýrslu um það hvaða afleiðingar þetta mun hafa fyrir samfélag okkar. Þetta þýðir að þeir sem sinna þeim störfum sem ekki hverfa eða verða bætt af róbótum og tölvum muni fá hærri laun. Þeir sem eiga fjármagn til að kaupa róbóta munu líka fá meira fyrir sinn snúð. Aftur á móti mun tímabundið atvinnuleysi rjúka upp. Hve mikið vitum við ekki nákvæmlega en það mun fara töluvert upp og þau störf sem róbótarnir og tölvur keppa um munu ekki fara jafn hratt upp, lækka eða standa í stað.

Þetta þýðir að ef hið opinbera, eins og The Economist bendir á, grípur ekki í taumana, þ.e. kemur ekki með rétta stefnu til að bregðast við — ef ég nota bara orðin þar, með leyfi forseta:

„Governments themselves might be transformed by new political movements emerging in response to the dissatisfaction generated by technological change: in benign ways, through political reform and realignment, or in uglier fashion.“

Þetta þýðir að ef ekki verður gripið til réttrar stefnu muni jafnvel verða bylting, þ.e. ef þær breytingar sem gerðar verða nú eru ekki réttar. Það sem þeir kalla eftir að verði meðal annars gert er að endurskipuleggja velferðarkerfið. (Forseti hringir.) Þeir kalla eftir „universal basic income“, þ.e. borgaralaunum.

Ég hvet alla til að kynna sér þennan möguleika. Við þurfum að fara að skoða þennan möguleika strax því að (Forseti hringir.) 20 ár eru svo fljót að líða. Við þurfum að skoða strax (Forseti hringir.) hvað þetta þýðir og hvernig við getum notað það því að annars (Forseti hringir.) getur það kostað okkur virkilega mikið.