144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Klukkan rúmlega tíu í morgun varð jarðskjálfti upp á 5,5 stig í Bárðarbungu. Ég velti því fyrir mér í tengslum við slíka atburði sem vel geta magnast hvort fólk á þeim slóðum, og víða reyndar, eigi almennt útvarp með langbylgju.

Samkvæmt upplýsingum frá RÚV eru útvarpssendingar hér á landi aðallega á FM-tíðni, en einnig á langbylgju. FM-sendarnir ganga fyrir rafmagni og ef rafmagnið fer fara dísilrafstöðvar í gang við sendana. Ef upp koma þær aðstæður að ekki er hægt koma olíu á sendana verða þeir að sjálfsögðu óvirkir. Endurvarpssendarnir eru eingöngu rafknúnir og eins og áður segir verða þeir óvirkir í rafmagnsleysinu. Þeir geta einnig orðið óvirkir sökum ösku sem getur haft áhrif á starfsemi þeirra.

Þetta þýðir að verði rafmagnslaust vegna náttúruhamfara er líklegt að á stórum svæðum verði almenningur að treysta á langbylgjusendingar útvarps til að fylgjast með upplýsingagjöf og fréttum. Ég er ansi hrædd um að fæstir landsmenn eigi slík útvörp. Langflest útvarpstæki sem hér eru í notkun eru með aðeins með FM-bylgju en ekki LW, eða „long wave“.

Á heimasíðu RÚV segir, með leyfi forseta:

„Óvitlaust er að hafa á heimilinu lítið ferðaútvarp knúið rafhlöðu sem getur tekið á móti langbylgjumerki.“

Ég held að kveða þurfi mun sterkar að orði og upplýsa almenning mun betur, því að ein aðalröksemdin fyrir tilveru RÚV og þeim opinberu útgjöldum sem því fylgja er öryggishlutverkið. Ég hef verulegar áhyggjur af því að ef hér verða meiri háttar náttúruhamfarir geti fólk ekki reitt sig (Forseti hringir.) á Ríkisútvarpið.