144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta það að ég talaði ekki um að síðasta ríkisstjórn hefði komið sérstaklega illa fram við Vestfirðinga. (LRM: Ég hlustaði á þig.) Ég bið hv. þingmann að kynna sér þetta betur. (LRM: Ég geri það.) Það sem ég nefndi í því útvarpsviðtali var að við þyrftum að gera betur á Vestfjörðum. Við það stend ég. Samgöngunefnd ætlar að gera sér ferð núna á fimmtudaginn og fara þar víðsvegar um, skoða Teigsskóg, Dynjandisheiði, væntanlegar framkvæmdir við Dýrafjarðargöng, almennar vegasamgöngur og allt það sem undir málaflokkinn heyrir til að kynna sér það frá fyrstu hendi.

Það sem ég sagði hins vegar í þessu útvarpsviðtali og man mjög vel var að málaflokkurinn hefur í raun og veru verið sveltur frá hruni. Að sjálfsögðu hefur það verið gert með því markmiði að ná fram hallalausum fjárlögum, það er grunnstefnan. Og svo þurfum við að gæta að velferðarmálum þjóðarinnar. Núverandi ríkisstjórn leggur jafn mikla áherslu á það. Ég veit að síðasta ríkisstjórn vildi það, þó að hún af veikum mætti gerði ekki eins mikið og maður vonaðist eða ætlaðist til að hún gerði.

Samgönguáætlun fyrir árin 2013–2016 var ekki samþykkt í tíð síðustu ríkisstjórnar og okkur hefur ekki tekist að samþykkja hana enn, því miður, af sömu ástæðu og það tókst ekki á síðasta kjörtímabili vegna þess að áætlað er minna í málaflokkinn en samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Það er allt rétt sem hv. þingmaður (Gripið fram í.) fór yfir hér áðan. Nei, allir þeir sem hafa áhyggjur af þessum málaflokki hljóta að vera sammála um að það er ekki ásættanlegt.

Ég hef bent á það og verið mjög hreinskilinn að við verðum að horfast í augu við það að ef við setjum ekki meiri fjármuni í málaflokkinn mun það verða dýrara til langframa. (Forseti hringir.) Þess vegna bið ég hv. þingmann að gera nákvæmlega eins og við framsóknarmenn gerðum á síðasta kjörtímabili; við aðstoðuðum ríkisstjórnina við að koma á stórum (Forseti hringir.) samgöngumannvirkjum, eins og Vaðlaheiðargöngum, en stóðum ekki hér í ræðustól og (Forseti hringir.) gagnrýndum allt sem úrskeiðis gæti farið. (Forseti hringir.)