144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þann 1. október sl. tók peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þá ákvörðun að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum enn um sinn eins og verið hefur í tvö ár. Á þessum tveimur árum hefur verðbólga bæði verið frekar há og frekar lág, gengið sterkt og ekki sterkt, þensla yfirvofandi og ekki yfirvofandi, en það breytir ekki neinu um það að Seðlabankinn heldur ávallt óbreyttum stýrivöxtum. Það kemur reyndar fram að verðbólga mælist nú 1,8% og hafi verið undir markmiði í átta mánuði og það séu horfur á minni verðbólgu næstu mánuði en spáð var í ágúst, en samt dugar það ekki til.

Um leið notar seðlabankastjóri tækifærið til þess að berja á þeim sem eiga að semja um kaup og kjör á Íslandi og varar við að hér verði of miklar kauphækkanir til þeirra sem lægst hafa launin. Hann segir á mbl.is, með leyfi forseta:

„Launahækkanir detta ekki af himnum ofan og það að kjarasamningar fari úr böndunum tengist oft spennu á vinnumarkaði,“

Þarna bregst nú seðlabankastjóra heldur betur skammtímaminnið vegna þess að kjararáð ákvað laun hans sjálfs með ákvörðun 29. júní í fyrra þar sem hann fékk kauphækkun rúma 12 mánuði aftur í tímann sem námu um það bil mánaðarlaunum eins verkamanns fyrir hvern mánuð.

Það væri svo sem ágætt fyrir þennan ágæta mann, áður en hann byrjar að lesa mönnum pistilinn sem ekki hafa sest að samningaborði, að íhuga aðeins hvað hann segir. Í þessu tilfelli var launahækkunin nánast eins og hún félli af himnum ofan í skaut hans og örfárra annarra ríkisforstjóra. Ég held að þetta sé spennuvaldur. Það er ekki fólk sem fær 2,85% launahækkun sem fer út og eyðir stórfé. Það eru menn sem fá svona launahækkanir (Forseti hringir.) í hverjum mánuði sem eru til í að auka spennu.