144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil fagna því að Ríkisendurskoðun hefur lokið skoðun á fjárhag Þorláksbúðarfélagsins. Á sínum tíma var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sammála um að taka upp erindi frá almennum borgurum er varðaði fjármögnun og tilurð Þorláksbúðar. Könnun nefndarinnar snerist um atburðarásina eða verkferlana sem leiddu til þess að skyndilega reis á einum helgasta stað þjóðarinnar það sem kallað var tilgátuhús, án þess að vera það og án þess að nokkur bæri fjárhagslega ábyrgð. Upphaf fjármögnunar má rekja til þess að 1 millj. kr. af svokölluðum skúffupeningum ráðherra var úthlutað til verkefnisins og í kjölfarið samþykkti fjárlaganefnd í þrígang fjárveitingu til verkefnisins — af því að verkið var hafið.

Framkvæmd skipulagslaga er svo ruglingsleg að húsið reis án tilskilinna lagaheimilda að mati skipulagsstjóra, en á meðan á verkinu stóð taldi enginn sig geta gripið inn í atburðarásina. En eins og fram kemur í skýrslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar setti þáverandi hæstv. umhverfisráðherra reglugerð í byrjun árs 2013, sem telja má að komi í veg fyrir skipulagsslys af þessum toga í framtíðinni.

Ríkisendurskoðun hefur nú upplýst að Þorláksbúðarfélagið er í skuld við kirkjuráð upp á 12,9 millj. kr. Virðulegi forseti. Ég hefði búist við því að Ríkisendurskoðun áminnti fjárveitingavaldið, áminnti Alþingi um að vanda til fjárveitinga. En Ríkisendurskoðun gerði það ekki heldur snerist hún í óþarfa og óskiljanlegar varnir gagnvart þingnefndinni sem fjallaði um málið, svo ekki sé talað um þá óviðurkvæmni að setja í opinbera greinargerð snöpuryrði um almenna borgara þessa lands sem láta aðgerðir okkar á Alþingi sig varða.