144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar í örfáum orðum að tíunda hvað margt hefur áunnist á því 16 mánaða tímabili sem núverandi ríkisstjórn hefur starfað.

Hér hefur hafist viðspyrna til góðra verka. Ég vek sérstaklega athygli á því 16 mánaða tímabili sem ríkisstjórnin hefur starfað núna. Mér hefur stundum fundist á þeim tíma sem ég hef setið á Alþingi að 16 mánuðir sumra ríkisstjórna felist við upphaf þeirra og ekki sé mikið um það talað eða rætt á þeim nótum kannski að ekki hafi gefist tími til að vinna verkin.

Þá vil ég benda á hvað mörg verk eru hafin hér og batnandi hagur margra, enda höfum við haft að leiðarljósi að ríkisstjórnin vilji bæta hag heimilanna í landinu.

Hér er lág verðbólga. Hún hefur ekki verið svo lág um langan tíma. Lág verðbólga orsakar líka það að skuldir heimilanna lækka, þess vegna viljum við halda mjög í það að geta haft hér lága verðbólgu. Við höfum bætt og hækkað barnabætur sem er ekki mikið haldið hér á lofti. Við jukum framlög til elli- og örorkulífeyrisþega og við erum núna í nýju fjárlagafrumvarpi að stórauka framlög til nýsköpunar og vísinda. Við höfum það að markmiði að 3% af landsframleiðslu árið 2016 renni til tækni og vísinda. Ég held að það sé mjög gott fyrir ungu kynslóðina í landinu að þessir málaflokkar séu bættir. Einnig hefur tekist að skapa hér um 5 þús. ný störf (Forseti hringir.) og það held ég að sé kannski ein stærsta kjarabótin fyrir heimilin í landinu. Atvinnuleysi er eitthvert mesta böl sem er til.

Ég hefði getað haft miklu lengri lestur, virðulegi forseti, en hann verður að koma síðar.