144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér stöðu geðfatlaðra fíkla. Í síðustu viku aðstoðaði ég fjölskyldu og aðstandendur fíkils í miklum vanda. Staðan er grafalvarleg og myrkrið er algjört. Úrræðin eru engin og fjölskylda og vandalausir sátu uppi með vanda sem ómögulegt er að leysa. Vandinn er slíkur að við sem komum að svona málum erum rænd svefni.

Í Krýsuvík eru 22 rúm fyrir fíkla í langtímameðferð. Það er langur biðlisti. Það er erfitt að komast að í neyðarvistun á Landspítalanum. Á þessu ári hafa þrír einstaklingar sem hafa beðið eftir meðferð látið lífið áður en að þeim kom. Það er eðlilega ekki hægt að færa til á slíkum biðlistum. Við sem erum að reyna að bera ábyrgð á okkur sjálfum verðum að koma til hjálpar. Við verðum að breyta myrkri í birtu og skapa fólki nýtt líf.