144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er eins með mig og marga Íslendinga að ég kaupi mjólkurvörur frá MS án umhugsunar í hverri verslunarferð eins og ég sé í raun og veru í áskrift að þeim vörum. Ég held að ég sé örugglega ekki sá eini sem fylltist miklu og skyndilegu mjólkuróþoli við það að horfa á umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi, með fullri virðingu fyrir þeim sem glíma við þann kvilla. Sú umfjöllun og í rauninni úrskurðir samkeppnisyfirvalda að undanförnu og fréttir af umgengni við innflutningskvóta hljóta að vera tilefni til umhugsunar fyrir almenning og okkur sem störfum á þessum vettvangi.

Ég hvet þingmenn til að skoða umfjöllun Kastljóss og velta fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til þess á vettvangi þingsins að reyna að finna leiðir til að beita sér í þágu virkrar samkeppni í mjólkuriðnaði neytendum til hagsbóta.

Í Kastljósi var rifjuð upp saga MS og tilburðir Mjólkursamsölunnar til þess að kæfa alla samkeppni í fæðingu í krafti fákeppnisumhverfis og yfirburðastöðu og í krafti tengsla inn í stjórnsýsluna sem ég held að sé óhjákvæmilegt að ráðherra landbúnaðarmála fjalli um í þinginu og svari spurningum þingmanna þar um. Sem betur fer verður það gert hér í sérstakri umræðu á fimmtudaginn.

Til þess að undirstrika þessi tengsl barst okkur þingmönnum í morgun bréf frá einmitt fyrrverandi landbúnaðarráðherra og nú starfsmanni Mjólkursamsölunnar þar sem reynt var að draga upp þá mynd að (Forseti hringir.) MS starfi fyrst og fremst í þágu almennings í landinu. Umfjöllun Kastljóss sýnir svo ekki verður um villst að það er öðru nær.