144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp hér á Alþingi enda er það, eins og ég held, veit og vona að við séum öll meðvituð um, afar brýnt mál og mikið stórmál; eitthvað sem við höfum öll mikinn hug á að gera vel í. Kannski er hægt að ramma þetta inn í þremur þáttum. Það kom vel fram í máli hv. þingmanns að við þurfum að einbeita okkur að og fókusera á alþjóðlega línu í því og við þurfum að huga að því hvernig okkur tekst í öllum þeim þáttum. Það er í fyrsta lagi fræðsla, upplýsing til fólks, um þætti er varða umferðaröryggismál. Síðan eru það samgöngurnar sem spila stóran og mikinn þátt, gæði samgangna, viðhald og öryggi, og þessi eftirlitsþáttur sem aðallega er á höndum lögreglunnar.

Það er alveg hárrétt, sem kom fram hjá hv. þingmanni hér áðan, að fólk verður, vegfarendur, að geta treyst því að mannvirkin okkar séu örugg og að boðið sé upp á eins mikið öryggi í umferðinni og mögulegt er. Það er líka alveg rétt að við höfum náð miklum árangri á undanförnum árum. Það hefur kannski ekki síst gerst vegna þess að það hefur verið öflugra samstarf og mikið samstarf á milli opinberra aðila og einkaaðila í þessum þáttum.

Það má líka geta þess að um mitt ár 2011 fól Umferðarstofa, sem í dag er hluti af Samgöngustofu, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að meta kostnað þjóðfélagsins vegna umferðarslysa árið 2009. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var sú að beinn kostnaður af umferðarslysum það ár, þ.e. kostnaður við sjúkrahús, læknisþjónustu, lögreglu, slökkvilið, tryggingafélög, þar með talið eignatjón, var metinn á bilinu 10,2 til 10,7 milljarðar á verðlagi þess árs. Þannig að við sjáum tölurnar sem við vorum að tala um þá og hversu miklar greiðslur þetta eru. Ef óbeinum kostnaði er bætt við, svo sem framleiðslutap vegna ótímabærra dauðsfalla, greiðslna tryggingafélaga o.s.frv., er kostnaðurinn á bilinu 12,4 til 12,9 milljarðar kr. Það er ágætt að setja þetta í samhengi við hlutina þegar við erum að ræða um aðgerðir sem geta komið í veg fyrir þann mikla harm sem fylgir slíkum slysum.

Hv. þingmaður fjallaði um það sem hann kallar: Mikilvægi fimm stjörnu vega. Það er ágætishugtak í kringum það og ákveðin hugmynd. Það má nefna í því samhengi að Vegagerðin hefur um margra ára skeið mótað reglur og leiðbeiningar um hönnun vegamannvirkja sem eru nefndar veghönnunarreglur. Þar er stuðst við erlendar reglur sem lagaðar hafa verið að íslenskum aðstæðum og þar er reynt að tryggja það sem þingmaðurinn nefndi í breidd vega, gerð vegamóta o.s.frv.

Hins vegar verðum við líka að horfast í augu við þann veruleika sem ég hef oft nefnt hér, og held að ég verði að nefna aftur í þessu samhengi: Það er auðvitað þannig að íslenska vegakerfið er í dag um 13.000 kílómetrar í heildina. Staðreyndin er sú að á undanförnum árum hefur okkur ekki tekist nægilega vel að viðhalda því kerfi og tryggja fullt öryggi á öllum þeim vegum. Það er eitthvað sem við verðum að horfast í augu við og að mínu mati verðum við að forgangsraða samgöngumálum og vegamálum í samræmi við þá staðreynd.

FÍB hefur til dæmis verið að taka út vegi á Íslandi með stuðningi Vegagerðarinnar og þær upplýsingar hafa nýst ágætlega við að kortleggja svokallaða svartbletti og þá staði sem sérstaklega þarfnast viðhalds og umbóta. Þannig erum við að reyna að vinna hlutina markvisst með það fyrir augum að nýta fjármagnið vel. En ég ítreka það sem ég hef áður sagt, og hvet þingheim til að taka höndum saman um það í framtíðinni, að við þurfum að gera betur hvað varðar viðhald kerfisins. Það er kannski það sem er eitt af brýnustu umferðaröryggismálunum í dag, þ.e. að viðhalda því sem við eigum og tryggja að það sé vel gert.

Af því að hv. þingmaður minntist líka á mikilvægi fræðslu er það alveg rétt að hegðun ökumanna er talin skipta hvað mestu í því. Í umferðaröryggisáætlun er fjallað um þær aðgerðir sem við höfum gripið til í tengslum við áróður og fræðslu, sérstaklega til ungs fólks. Það verður að segja þá sögu eins og hún er líka og við getum nýtt þá reynslu að við Íslendingar erum af mörgum talin gera sérstaklega vel. Ég bendi á að Samgöngustofa hefur verið að gera ýmsa þætti í upplýsingu og fræðslu til ungs fólks sem hefur verið talið til algjörrar fyrirmyndar og hefur verið þannig að aðrar þjóðir telja sig geta lært af því. Sú fræðsla skiptir miklu máli.

Ég vil líka nefna það í lokin, svo get ég svarað betur þegar ég kem aftur upp varðandi einstaka þætti í fræðslunni, að það er mikilvægt sem hv. þingmaður nefndi og spurði sérstaklega um sem er flutningur umferðareftirlits Samgöngustofu til lögreglu. Það hefur auðvitað verið rætt og fór þingmannanefnd yfir það þegar rætt var um skiptingu viðbótarfjármagns til lögreglunnar. Það var mat þeirrar nefndar, og hefur reyndar áður verið mat þeirra sem að því hafa komið, að það gæti farið vel á því að gera það. Við höfum verið (Forseti hringir.) reiðubúin að skoða hagkvæmni þess. Það hefur ekki verið gengið til þess verks enn þá, en fyrir því er vilji. Það eru ákveðin flækjuviðfangsefni (Forseti hringir.) í því sem hv. þingmaður þekkir og ég get farið betur yfir það í ræðum hér á eftir.