144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og margir aðrir þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir þessa þörfu umræðu. Það er gleðiefni að það virðist vera tiltölulega mikill samhugur, ef ekki alger, um þessi mál, að það þurfi úr þeim að bæta. Auðvitað kostar þetta peninga sem er nokkuð sem við verðum að horfast í augu við og bregðast við.

Þótt ég geti í raun og veru lítið annað en tekið undir það sem hér hefur áður verið sagt langar mig að nefna það, svo einhver hafi nefnt það, að hjólreiðar eru vonandi vaxandi ferðamáti á Íslandi. Mér finnst alveg við hæfi að við höfum bak við eyrað að við þurfum að taka tillit til þeirra líka þótt ég geri mér vissulega grein fyrir því að maður hjólar ekki endilega á milli bæjarfélaga. Fólk á landsbyggðinni er kannski háð bílum og ég dreg ekki úr því en vil bara bæta því við að þegar kemur að öryggi hjólreiða almennt skiptir höfuðmáli að til staðar sé hjólamenning.

Á Íslandi ríkir ekki hjólamenning í raun. Við notum reiðhjól ekki mikið, það færist þó í vöxt sem betur fer og það er gott af mjög mörgum ástæðum. Þegar við lítum fram á veginn í þeim málaflokki finnst mér að við eigum að halda fókusnum á það að hægt sé að nota hjól sem víðast, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur líka í öðrum bæjarfélögum og auðvitað á milli þeirra ef vegalengdin er nógu stutt. Það er ekkert að því.

Þá er hægt að nefna sérstaklega að maður gæti viljað einfaldlega neyða alla til að vera með hjálma. Það er skynsamlegt að vera með hjálm, ég dreg ekki úr því, en ef það dregur úr hjólamenningunni getur það haft neikvæð langtímaáhrif á þróun hjólamenningarinnar sjálfrar sem þýðir að bílstjórarnir sem eru ekki vanir því að aka í kringum hjólreiðafólk kunna ekki að bregðast við aðstæðum. Maður sér mikinn mun á þessu þegar maður er í landi þar sem er rík hjólreiðamenning. Þar kann fólk að keyra í kringum hjólreiðafólk, Íslendingar kunna það almennt ekki vegna þess að við höfum ekki þessa menningu.

Mér fannst bara einhver þurfa að nefna þetta hérna en að því sögðu tek ég undir orð hv. þm. Vilhjálms Árnasonar að öllu leyti.