144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið nefnt í umræðunni kreppa og framlög til vegagerðar. Í því sambandi er rétt að halda því til haga að aldrei í sögu landsins hefur verið varið meiri fjármunum til vegaframkvæmda en einmitt árin 2008, 2009 og 2010. Sú staðreynd á auðvitað að vera stjórnvöldum leiðarljós um það með hvaða hætti má forgangsraða fjármunum, m.a. til að bæta samgöngur um landið en líka til að auka umferðaröryggi.

Við lifðum það hér fyrir nokkrum árum að eiga fyrsta árið þar sem ekkert banaslys varð á sjó. Ekki er langt síðan að það hefði þurft að segja mönnum það tvisvar og jafnvel þrisvar að á Íslandi ætti það eftir að gerast, eins margir menn og fórust á sjó ár eftir ár, áratug eftir áratug og öld eftir öld.

Sama markmiði getum við náð í umferðarvörnum. Til þess þurfum við áætlunargerð, aga, eftirfylgni og fjármuni. Árangursríkast er að takast á við svartblettina sem við þekkjum, slysastaðina í umferðinni og verja skipulega fjármunum til að sigrast á þeim og það hefur Vegagerðin gert. En ég held að það sé íhugunarefni fyrir fjárveitingavaldið hvort marka eigi sérstaklega fjármuni til slíkrar áætlunar, áætlunar um útrýmingu svartbletta, þannig að þingið geti sannarlega staðið vörð um það að þeir fjármunir séu fyrir hendi hvernig svo sem árar að öðru leyti í samfélaginu. Þetta var gert í Reykjavík með góðum árangri og má líka ná góðum árangri á þjóðvegum landsins.

Hitt er síðan auðvitað það að halda aftur af hraðanum og hafa aga og aðhald eins og kostur er í umferðinni. Það getur sjálfvirknin vissulega í æ ríkari mæli hjálpað okkur við, hlutir eins og hraðamyndavélar, radareftirlit og margvísleg ný tækni sem getur gert okkur kleift að tryggja það að menn fari að lögum á vegum. Í því sambandi er ástæða til að binda vonir við aukinn þunga (Forseti hringir.) í sjálfstýrðum ökutækjum og eitt af þeim verkefnum sem við í þinginu þurfum að huga að er að setja lagaramma fyrir þá tækniþróun í (Forseti hringir.) bílaiðnaði, sjálfakandi ökutæki, sem ryður sér til rúms.