144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:36]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir að hefja þessa umræðu og taka í raun undir hans orð hér.

Þegar kemur að umferðaröryggi er að ýmsu að huga. Vissulega koma umferðarmannvirki upp í hugann og ástand vega vítt og breitt um landið. Öll vitum við að einbreiðar brýr auka hættu á umferðaróhöppum og þær eru enn of margar á þjóðvegum hér á landi, auk þess sem afar bágborið ástand malarvega er staðreynd of víða. Það þekkjum við sem erum mikið á ferðinni um landið.

Sá þáttur sem ég hef velt fyrir mér, og hefur raunar komið hér fram, er hvort ekki sé hægt að nýta krafta og kunnáttu umferðareftirlitsmanna meira og betur en nú er gert. Víða má draga úr umferðarhraða og er sýnileiki lögreglu þá mikilvægur þáttur sem aðhald og hvati til ökumanna til að létta á bensínfætinum. Í ljósi frétta frá því í morgun sýnist mér ekki veita af því þar sem stór hluti ökumanna á ákveðnum svæðum ekur klárlega yfir leyfilegum hraða.

Nú hefur Umferðareftirlitið yfir fjórum vel búnum eftirlitsbílum að ráða, þrír eru í Reykjavík og einn á Akureyri. Þeir fara um land allt og sinna eftirliti. Sem dæmi fer Akureyrarbíllinn um Austfirði og Norðausturland eina vikuna og þá næstu kannski um Skagafjörð og Húnavatnssýslu. Þessir bílar eru sem sagt alltaf á ferðinni og geta þess vegna sinnt umferðareftirliti og verið góð viðbót við lögreglu á þeim stöðum sem þeir eru á þá og þá stundina. Í dag er það ekki hlutverk þeirra og verksvið. Til þess að það geti orðið þarf að breyta ýmsu varðandi menntun starfsmanna og réttindi. Eftir lauslega könnun skilst mér að grundvöllur sé til að skoða þennan vinkil á málinu. Bílarnir sem eftirlitið hefur til umráða eru vel tækjum búnir og starfsmenn margir hverjir með lögreglumenntun auk þess sem þeir hafa flestir lokið mörgum námskeiðum sem tengjast starfinu og má þar nefna löggilta vigtunarmenn og reglubundin skyndihjálparnámskeið. (Forseti hringir.)

Ég vil því taka undir spurningu til ráðherra varðandi þessi mál, hvort breytingar séu fyrirhugaðar.