144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

vegalög.

157. mál
[15:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að forvitnast hjá hæstv. ráðherra um ákvæði í 5. gr. frumvarpsins, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um gjaldtöku af umferð samkvæmt ákvæði þessu, meðal annars um álagningu veggjalda og notkunargjalds og fyrirkomulag innheimtu, sem og um viðurlög við brotum á ákvæðum reglugerðarinnar …“.

Heimildin er þannig í lögum í dag að ráðherra getur með reglugerð sett á veggjöld. Ég tel mjög óeðlilegt að sú heimild sé fyrir hendi, að menn geti með geðþóttaákvörðun, hversu vel sem að því er staðið, lagt á veggjöld hvar sem er á landinu. Þau eru ekki víða, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, en á móti spyr maður: Væri ekki eðlilegast að ákvörðun um gjaldtöku væri lagabundin þó að reglugerðin fjallaði um það hvernig standa ætti að framkvæmd? Nú kann að vera að ég sé að misskilja eitthvað, en ég tel mikilvægt að fá skýrari svör hvað þetta varðar.

Í öðru lagi er það 6. gr. Þar er fjallað um að lagt sé mat á umferðaröryggi á mismunandi kostum við vegalagningu. Ég sé enga ástæðu til annars en að styðja það. Í umfjöllun um Vestfjarðaveg 60, í umfjölluninni um Teigsskóg, var þeim rökum Vegagerðarinnar að verið væri að leggja veg til að tryggja umferðaröryggi hafnað í umhverfismati. Ég spyr hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta því líka í lögunum um umhverfismat, að heimilt verði að taka tillit til umferðaröryggisþátta við mat á kostum hvað það varðar.

Ég kem kannski fleiri spurningum að í seinna andsvari.