144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:26]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú fáum við vonandi tækifæri til að ræða þetta betur í nefndinni. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það þarf auðvitað að gæta hófs í allri framkomu gagnvart aðilum og gæta jafnræðis, hvort sem það eru þeir sem eiga fjármagn eða aðrir. Og ég tek líka undir með hæstv. ráðherra að það er gríðarlega mikilvægt að umboðsmaður skuldara gegni ráðgjafarhlutverki, sé sem sagt leiðbeinandi og fari jafnvel í fjármálafræðslu þegar lengra líður. Þess vegna má ekki skera þessa stofnun illa niður. Við eigum að nota tækifærið. Þeir sem eru lánveitendur í þessu landi fjármagna stofnunina að mestu leyti.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja um í viðbót. Það hafa komið upp áhyggjuefni hjá einstökum aðilum sem hafa átt kröfur á skuldara. Þegar menn eru komnir í lokasamninga er samningurinn sendur út og þá fá jafnvel þeir sem eiga kröfu á viðkomandi, t.d. verslanir, lista yfir allar skuldir viðkomandi aðila. Þetta tengist kannski því sem hér var rætt áðan, um persónuvernd og trúnaðarupplýsingar. Hafa menn skoðað hvort hægt sé að gera þetta? Sumir hafa sagt: Ég vil ekkert vita um þetta, ég vil bara vita hvað á að fella niður og treysti umboðsmanni. Þetta er ein pæling sem mér finnst við þurfum að taka upp vegna þess að hugmyndin er ekki sú að senda út plögg til kannski 20 aðila um skuldastöðu viðkomandi einstaklings og hvaða skuldir er verið að fella niður.

Annað sem ég hef mikið velt fyrir mér er hvort það hafi verið rangt hjá okkur í fyrri ríkisstjórn og við höfum ekki fylgt nægilega vel eftir varðandi sérstöku skuldaaðlögunina. Mig langar aðeins að heyra skoðun hæstv. ráðherra á því þótt ég viti að málið falli ekki undir hana. Sérstök skuldaaðlögun var úrræði sem var sett upp sem hálfgerðir nauðasamningar þar sem allt var lagt undir og var hægt að gera í frjálsum samningum, án þess að fara í greiðsluaðlögun, og ljúka þeim, fara út úr þessu án þess að fara í gjaldþrot. Þetta var tímabundið ákvæði, en var allt of lítið notað að mínu mati vegna þess að bankarnir fundu aðrar leiðir. Hefði verið (Forseti hringir.) ástæða til að skoða það hvort slíkt úrræði yrði gert varanlegt, alveg eins og er hjá fyrirtækjum? (Forseti hringir.) Það væri hægt að setjast niður, fara yfir allar skuldir, meta greiðslugetu, setja upp (Forseti hringir.) plan og ljúka málinu í frjálsum samningum (Forseti hringir.) án þess að það færi fyrir umboðsmann.