144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu mun velferðarnefnd við vinnslu málsins kalla umboðsmann skuldara fyrir sig, geri ég ráð fyrir. Umboðsmaður skuldara hefur nýlega fengið niðurstöður úr könnun sem embættið lét gera hjá þeim sem höfðu notið þjónustu stofnunarinnar. Það sem mér fannst vera einkar áhugavert í þeirri könnun var að þeir sem voru óánægðastir með þjónustu umboðsmanns skuldara voru þeir sem höfðu ekki fengið úrræði, þeir sem hafði verið vísað frá á grundvelli mjög strangra skilyrða í lögunum. Það sem kom líka í ljós að þeir sem hafði verið vísað frá voru meira og minna enn þá í fjárhagserfiðleikum, það hafði ekki leyst nein vandamál hjá þeim að vera vísað í burtu.

Fram undan er að fara í gegnum reynslu okkar af löggjöfinni. Hún var unnin að mjög miklu leyti af þinginu, það voru gerðar óvenjulega miklar breytingar á þeim frumvörpum sem þáverandi ráðherra lagði fram. Nú höfum við fengið töluverðan fjölda af úrskurðum frá úrskurðarnefnd greiðsluaðlögunarmála og höfum núna náttúrlega mikla reynslu sem umboðsmaður skuldara hefur safnað í gegnum árin eftir þennan mikla málafjölda. Nú teljum við rétt að fara í gegnum það sem við þurfum að laga í löggjöfinni. Á síðustu mánuðum höfum við t.d. séð í endann á greiðsluaðlögun sem snýr að afmáningu veðkrafna. Þar hefur verið mjög gott samstarf umboðsmanns skuldara og sýslumanna og umboðsmaður skuldara hefur getað unnið þessi mál mjög mikið fyrir sýslumennina þar til kemur að lokapunktinum.

Dæmið sem var nefnt hér um opinberar stofnanir er eitt af því sem var gagnrýnt þá og hefur verið gagnrýnt síðan. Ég held að það sé bara eitt af því sem við þurfum að fara yfir, sérstaklega í ljósi þeirrar (Forseti hringir.) niðurstöðu að við erum með fólk sem er enn þá í ákveðnu tómarúmi (Forseti hringir.) og uppfyllir heldur ekki skilyrði (Forseti hringir.) til þess að fá aðstoð vegna gjaldþrotaskipta vegna þess að þar erum við með ströng skilyrði líka.