144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir andsvarið. Ég vil bara viðurkenna það hér og nú að ég þekki ekki nógu vel til þess ósamræmis sem hv. þingmaður bendir á. Ég vil gjarnan kynna mér það ögn betur og get því miður ekki svarað því, en það er rétt sem hv. þingmaður segir að einstaklingum er settur mjög þröngur rammi í t.d. greiðsluaðlögunarferli. Allir vilja líklega standa við samninga sína og leggja sig alla fram við það.

Það er rétt að ég fékk staðfestar upplýsingar í svari hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn minni um hvernig fjármálastofnanir héldu utan um skráningu viðskiptasögu einstaklinga er farið hafa t.d. í greiðsluaðlögunarferli. Fram kom að eftir að ferlinu lyki væru einstaklingar merktir sem slíkir með ákveðnum auðkennum í kerfum bankanna í allt að sjö ár. Það er alvarlegt að því leyti að ég tel upplýsingaskylduna ekki næga og tel nauðsynlegt að þegar einstaklingar fara í gegnum svona ferli sé löggjöfin það skýr að þeir geri sér grein fyrir því hvað það þýði eftir að ferlinu er lokið.