144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég tek undir að það skiptir verulegu máli að velferðarnefnd fari mjög vel yfir þetta mál og líka önnur ákvæði laga sem snúa að umboðsmanni skuldara.

Eitt af því sem ég vildi nefna að lokum tengist orðum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar um ráðgjöf og fræðslu. Það er alveg rétt að samkvæmt fjárlögum er verið að leggja til verulegan samdrátt hjá umboðsmanni skuldara. Það var niðurskurður í ár og það er verulegur niðurskurður á næsta ári. Það endurspeglar náttúrlega fyrst og fremst fækkun mála, batnandi skuldastöðu heimilanna, og við munum vonandi aldrei sjá viðlíka fjölda af málum og fóru í gegn hjá umboðsmanni skuldara á síðustu árum. Ég held að mikilvægt sé að læra af því að við þurfum ekki aðeins að huga að því úrræði að bjóða upp á ákveðna skuldahreinsun, og síðan hvað það merkir hugsanlega í kerfum fjármálafyrirtækjanna, heldur einnig að því, sem mig minnir að hv. þingmaður hafi nefnt, sem snýr að fjármálameðferð, hvernig við getum hjálpað fólki að ná tökum á fjármálum sínum til framtíðar.

Það hefur verið umræða um það í fjölmiðlum þar sem menn hafa bent á að við þurfum jafnvel að kenna hvernig við höldum utan um fjármál okkar, að fjármálalæsi hjá ungu fólki sé alls ekki nægilegt og þegar við erum með fólk sem hefur lent í miklum fjárhagslegum örðugleikum þarf sérstaklega að styðja það til þess að það nái betri tökum á fjármálum sínum til framtíðar litið. Það er hægt. Það eru til fræði um það og ég tel mjög mikilvægt að bæta því inn í þetta ferli þannig af fólk sé ekki sett í greiðsluskjól og skilið þar eftir, jafnvel árum saman, án nokkurs stuðnings. Það eru aðeins kröfur um að fólk eigi að spara ákveðna upphæð en það fær enga aðstoð við að breyta hegðun sinni þegar kemur að fjármálum.

Við vitum líka að það eru margvíslegar ástæður fyrir því að fólk lendir í erfiðleikum með fjármál og það þarf að vera hluti af þessu. Ég er sannfærð um að hægt sé að gera þetta án þess að verið sé að tala um verulegan kostnað. Ég er líka sannfærð um að fjármálafyrirtækin hljóti að vera sammála okkur hvað það varðar, þarna eru við að tala um fjárfestingu sem ætti að nýtast öllu í samfélaginu til framtíðar. Við viljum svo sannarlega tryggja að þeir sem hafa fengið þjónustu hjá umboðsmanni skuldara séu ánægðir með þá þjónustu og að þeir þurfi vonandi aldrei aftur að leita aðstoðar með fjármál sín. En ég er ekki viss um að við séum komin þangað með núverandi lagaumhverfi eða það stoðumhverfi sem við erum með og því þarf það að vera hluti af framtíðarumræðunni.