144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er skopmynd í Fréttablaðinu í dag sem sýnir íslensku krónuna banka upp á á íslensku heimili. Hún segir, með leyfi forseta: „Góða kvöldið. Ég er að safna fyrir bættum hag þeirra sem hafa tekjur í erlendum gjaldmiðli. Hvað má bjóða þér að rýra laun þín um mörg prósent?“

Myndin minnir okkur á þau slæmu áhrif sem krónan hefur á kjör almennings. Það hlýtur að vera skýlaus krafa að umsóknarferli um aðild að Evrópusambandinu verði klárað með möguleika á inngöngu í myntbandalagið í kjölfarið og samningurinn borinn undir þjóðina. Þá getur fólkið í landinu annaðhvort hafnað þeirri kjaraskerðingu sem krónan veldur eða samþykkt hana.

Staðan er þannig í dag að hagkerfið býr til ný störf sem eru nær eingöngu láglaunastörf og erlend fjárfesting lætur á sér standa. Mikilvægt er að hlúa að sprotafyrirtækjum og efla nýsköpun til að undirbúa góð störf og fjölbreytt til framtíðar. Vandinn er hins vegar sá að nýsköpunarfyrirtæki vaxa ekki hér á landi innan gjaldeyrishafta og hagfræðingar hafa sumir sagt að krónan muni alltaf vera í einhvers konar höftum. Framtíðarsýnin sem krónan býður okkur upp á er því ekki glæsileg.

Þeir sem vilja halda íslensku krónunni, minnsta sjálfstæða gjaldmiðli í heimi, þurfa að svara því hvers vegna þeir vilja það. Er ástæðan einhver önnur en sú að þeir vilji einhæft atvinnulíf og líti á það sem kost að með krónunni sé hægt að rýra kjör almennings þegar það hentar án kjarasamninga?