144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins í gær og í síðustu viku og í umfjöllun Kastljóssins í síðustu viku hefur þeirri ótrúlegu aðferð verið beitt við mann sem glímir við alvarlegan sjúkdóm að hann hefur verið lokaður inni allan sólarhringinn í litlum og nær galtómum einangrunarklefa á Litla-Hrauni í tvo mánuði.

Málefni fanga sem glíma við geðsjúkdóma á Íslandi eru í miklum ólestri og hafa verið lengi. Ríkisendurskoðun benti á það í skýrslu árið 2010 að engin úrræði væru fyrir geðsjúka fanga og að útilokað hefði reynst að fá fyrir þá langtímainnlögn á geðsviði Landspítalans. Sama gagnrýni hefur ítrekað komið fram í skýrslum pyndingarnefndar Evrópuráðsins sem með reglubundnum hætti hefur heimsótt fangelsi á Íslandi.

Sá maður sem hér um ræðir var sviptur sjálfræði á síðasta ári, en sú svipting rann út í vor og fljótlega eftir það fór að halla undan fæti, enda tekur maðurinn ekki lyf þegar hann hefur sjálfræði og hefur ekki færni sökum sjúkdóms síns að meta nauðsyn þess að halda áfram að taka þau.

Þjóðfélagið er algerlega úrræðalaust gagnvart svona veikum einstaklingum og við þurfum að búa þessi úrræði til. Við þurfum að opna stofnun sem getur tekið við einstaklingum sem eru veikir og hugsanlega hættulegir. Það er ekki boðlegt að læsa nokkurn mann inni í einangrunarklefa í tvo mánuði. Þessi vandi hverfur ekki af sjálfu sér. Það er ekki hægt að læsa hann inni. Það þarf að leysa þetta mál. Mér er kunnugt um að starfshópur sé að störfum. Það er okkur öllum til vansa hversu langan tíma það hefur tekið að leysa úr þessu. Sama úrræði var beitt við sama mann, sama fanga, á síðasta ári. Þetta er auðvitað ekkert annað en mannréttindabrot.