144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ástæða er til að þakka hv. 9. þm. Reykv. s., Helga Hjörvar, fyrir að vekja áðan athygli á úrskurði ESA um innflutning á hráu kjöti. Úrskurðurinn kristallar mjög vel þann grundvallarágreining sem Íslendingar eiga við ESA um innflutning á hráu kjöti, sem Íslendingar og ríkisstjórn Íslands telja heilbrigðismál en ekki verslun yfir landamæri. Það er því nokkuð víst að íslensk stjórnvöld muni grípa til varna út af þessum úrskurði og berjast gegn honum með öllum ráðum.

Hvers vegna er nauðsynlegt að við séum andvíg innflutningi á hráu eða fersku kjöti? Jú, það er óttinn við sjúkdóma og nauðsyn þess að varðveita hreinleika þess búfjárstofns sem er á Íslandi. Það er líka ástæða að vernda þann hreinleika sem birtist í því að Íslendingar nota nánast allra landa minnst af sýklalyfjum í landbúnaði og í matvælaframleiðslu. Hvaða hagsmunamat er þetta? Jú, það er það hagsmunamat að hagsmunir þjóðarinnar séu best varðveittir með því að varna því að hér gjósi upp sjúkdómar.

Það kom líka fram í máli hv. þingmanns að honum þætti illt að Íslendingar hafi ekki reynt að halda áfram samningum við tollabandalag, sem heitir Evrópusambandið, og talaði um að möguleikar okkar á því að flytja út væru hamlaðir. En það er náttúrlega skýring á því. Þetta er verndarbandalag, tollabandalag, þess vegna gengur okkur ekki vel að flytja þar inn og það kristallast kannski í því hversu vonlaust það er að fella einhliða niður tolla. Það gerist hvergi.