144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[15:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér á sér stað og hv. málshefjanda en vil nefna líka, eins og hann gat um, að til stóð að þessi umræða færi fram á síðasta vori. Sá sem hér stendur var tilbúinn til þess þá en málshefjandi hafði ekki tök á því á þeim degi sem ætlaður var til umræðunnar.

Hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson gerir að umtalsefni það mikilvæga mál sem snýr að lífsstílstengdum sjúkdómum sem réttilega, eins og hann getur um, er að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar talin orsök fyrir um 77% af þeirri sjúkdómabyrði sem hrjáir Evrópuþjóðir mest í dag. Þetta snertir hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, langvinna lungnasjúkdóma og sykursýki sérstaklega. Almennt á heimsvísu eru þessir sjúkdómar taldir orsaka um það bil 60% dauðsfalla þannig að það er að mörgu að hyggja í þessu og mörg tækifæri, tel ég, fyrir Íslendinga til að taka stöðu í þessum efnum.

Sömuleiðis eru að stórum hluta þekktir flestir þeir áhættuþættir sem þarna falla til; reykingar, óhollt mataræði, hreyfingarleysi og óhófleg áfengisnotkun. Að þessum málum er hér sérstaklega unnið af hálfu stjórnvalda á vegum embættis landlæknis sem hefur í kjölfar breytinga sem gerðar voru 2011 með sameiningu Lýðheilsustöðvar og embættis landlæknis verið með yfirumsjón þessara mála. Embættið hefur unnið heildrænt í þessum efnum og reynt að nálgast þetta með þeim hætti að stuðla að kerfislægum breytingum sem ætlað er að draga meðal annars úr ójöfnuði til heilsu og skapa aðstæður til að ýta undir heilbrigða lífshætti.

Nefnd var skýrsla sem unnin var árið 2005 á vegum faghóps sem vann mikla og góða vinnu og skilaði tillögum sínum til forsætisráðherra í september 2006. Þar undir eru 68 tillögur. Þessi skýrsla hlaut aldrei formlega afgreiðslu í þinginu. Hins vegar hefur stjórnkerfið unnið á mörgum sviðum að framgangi margra tillagna sem þar komu fram.

Af því að hv. þingmaður gerði sérstaklega að umtalsefni hreyfingarleysi yngri aldurshópa er rétt að taka undir það. Ég vil engu að síður geta þess að því sem lýtur að þeim efnum er að stærstum hluta sinnt af íþróttahreyfingunni og félagasamtökum sem vinna alveg óhemjugott starf. Það sem snýr að okkur í heilbrigðiskerfinu lýtur að þeim verkum sem embætti landlæknis hefur haft með höndum og meðal annars að mælingum á þeim helstu breytum sem þarf að horfa til í þessum efnum, tóbaksnotkun eða jafnvel þyngd skólabarna. Það vill svo til að ég er með tiltölulega nýjar og ágætar upplýsingar um það hér og það er alveg ljóst að á síðari hluta 20. aldar varð mjög mikil þyngdaraukning og hækkun á hlutfalli þeirra barna sem voru of þung eða of feit en mælingar síðasta áratug benda til þess að þarna sé ekki um verulega aukningu að ræða. Engu að síður er þetta gríðarlegt vandamál, sérstaklega ef maður horfir til þess að að meðaltali eru 20% barna á skólaaldri, í 1., 4., 7. og 9. bekk, yfir kjörþyngd.

Það er töluverður munur á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu í þessum efnum. Þetta eru mælingar á árunum 2013–2014. Ef ég man rétt eru um 25% barna á landsbyggðinni yfir kjörþyngd en rétt rúm 18% á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er verulegt áhyggjuefni og það eru full færi til að taka á í þessum efnum og ég kem kannski að því í seinni ræðu með hvaða hætti unnið er að því á vegum embættis landlæknis í samstarfi við heilsugæslu, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og fleiri stofnanir í okkar (Forseti hringir.) ágæta þjóðfélagi.