144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[16:00]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, fyrir að taka upp þessa umræðu og leggja á hana sérstaka áherslu í þinginu í dag. Hann vitnar í skýrslu faghóps frá 2006 um bætt heilbrigði þjóðarinnar. Þar eru mataræði og hreyfing þeir tveir lykilþættir sem hafa hvað mest áhrif á heilbrigði og lífsgæði. Þetta vitum við auðvitað. Við vitum líka að þetta helst í hendur við hagkvæmni í ríkisfjármálum því að hraust og heilbrigt fólk kostar einfaldlega minna fyrir samfélagið. Við borgum minna í heilbrigðiskerfið og aðra þjónustu fyrir hraust fólk. Þetta eru allir sammála um, þetta eru engin ný sannindi, og því ætti að vera auðvelt, skyldi maður ætla, að forgangsraða í þá átt. Við vitum öll að það borgar sig margfalt að vera með fyrirhyggju og byggja til framtíðar og leggja mikla áherslu á lýðheilsu og forvarnir. Samt sem áður gerum við aldrei nógu vel.

Landlæknisembættið hefur í meira en áratug bent á og varað við því að offita barna og unglinga fari vaxandi. Offita á unglingsárum leiðir oftast til offitu á fullorðinsaldri og er ávísun á fjölmörg heilsufarsvandamál eins og hér hefur verið tíundað. Landlæknisembættið bendir einnig á, og það er mjög mikilvægt, að meðferð við offitu barna og unglinga sé vandasöm og árangur hafi verið lélegur. Því eru fyrirbyggjandi aðgerðir afar mikilvægar; þær eru ódýrastar fyrir samfélagið og þær eru líklegastar til þess að skila árangri.

Þarna komum við alþingismenn að málum því að fjárveitingar og stefnumótandi áherslur eru jú í okkar höndum. Ég vil ljúka máli mínu með því að hvetja hv. þingmenn og ríkisstjórnina til dáða og ég er þess fullviss að allir þingmenn vilja leggja lóð á vogarskálarnar í þessum efnum.